Endurreisnartónleikar Hymnodiu og SCS í Akureyrarkirkju n.k. sunnudag
Hymnodia, norræna endurreisnarhljómsveitin Scandinavian Cornetts and Sackbuts og Ágúst Ingi Ágústsson, stjórnandi Cantores Islandiae, flytja gullfallega ítalska, spænska og enska endurreisnartónlist á tónleikum í Akureyrarkirkju sunnudaginn 17. nóvember kl. 17.
Sveitin er skipuð:
Lene Langballe (DK), Nils Carlsson (SE), Marit Lund Bjørnsen (NO) og Christoph Schnaithmann (SE)
Meðlimir hljómsveitarinnar spila á hljóðfæri endurreisnarinnar, zink (cornett) og endurreisnarbásúnur (sackbut) og eru þau öll sérhæfð í flutningi á endurreisnartónlist og í fremstu röð í leik á þessi stórmerkilegu hljóðfæri. Þau eiga frábæran tónleikaferil með fremstu tónlistarhópum Evrópu.
Scandinavian Cornetts and Sackbuts taka þátt í stærri verkefnum, svo sem flutningi á verkum eins og Monteverdi Mariavesper og Orfeo, en koma einnig fram sem sjálfstæð sveit.
Ágúst Ingi Ágústsson er stofnandi og stjórnandi Cantores Islandiae, hóps sem sérhæfir sig í gregorsöng og flutningi tónlistar frá miðöldum. Hann mun koma fram í verkinu Miserere Mei eftir Allegri.
Hymnodia hefur nýlokið við risavaxið verkefni þar sem kórinn tók þátt í flutningi Skálmaldar á öllum plötum hljómsveitarinnar í Hörpu. Það er í anda kórsins að stökkva á milli mjög ólíkra verkefna en leita eftir samstarfi við framúrskarandi listamenn á sínu sviði, sem á heldur betur við í báðum þessum verkefnum.
Miðaverð 5000 kr