Endurbætt húsnæði Aðgerðarstjórnar almannavarna tekið í notkun

Yfirlitsmynd frá nýju aðstöðinni                            Mynd lögreglan
Yfirlitsmynd frá nýju aðstöðinni Mynd lögreglan

Samkvæmt stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum frá árinu 2021 á að vera uppsett stjórnstöð í hverju umdæmi lögreglunnar á landinu til að halda utan um og stýra aðgerðum í almannavarnaástandi sem og þegar önnur samhæfing viðbragðsaðila er þörf.

Frá árinu 2018 höfum við haft slíka stöð til notkunar á Akureyri fyrir Norðurland eystra og hefur hún verið í húsnæði Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri. Þessi stjórnstöð hefur virkilega komið að góðum notum og sannaði svo sannarlega gildi sitt í óveðrinu í desember 2019 sem og í gegnum allt Covid tímabilið þar sem hún var mönnuð svo mánuðum skipti.

Auk þessara tilvika þá koma reglulega upp verkefni þar sem hún er mönnuð, s.s. vegna leitar og björgunar, viðbúnaðarstiga vegna flugatvika, hópslysa, náttúruvár svo eitthvað sé nefnt. Aðkomu að stýringu aðgerða eiga almennt fulltrúar frá lögreglunni, Slökkviliði Akureyrar, svæðisstjórn björgunarsveita, HSN, SAk og RKÍ.

Nú í upphafi þessa árs hófst samtal um að gera þessa góðu aðstöðu, sem við höfum haft undanfarin ár, enn betri með því að færa hana til í annað og stærra rými innan sama húss.

Nú er sá tími kominn að nýja aðstaðan er klár og uppsett með þeim hætti sem við viljum hafa hana. Í gær var hún formlega tekin í notkun þegar fulltrúar allra viðbragðseininga komu þar saman og kynntu sér hana.

Margt þarf að ganga upp til að svona aðstaða verði klár og þar eiga stærsta aðkomu Súlur, björgunarsveitin á Akureyri, almannavarnanefnd í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Facebooksíða lögreglu sagði fyrst frá.

Halldór Haldórsson Súlum  og Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri

Nýjast