ELKO innleiðir byltingarkennt snjallspjall í vefverslun

„Við sjáum að mörg fyrirtæki eru fikra sig í átt að notkun spjallmenna en við höfum hins vegar ávall…
„Við sjáum að mörg fyrirtæki eru fikra sig í átt að notkun spjallmenna en við höfum hins vegar ávallt lagt áherslu á persónulega þjónustu og viljum gefa viðskiptavinum kost á að tala við alvöru fólk,“ segir Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóri ELKO

ELKO hefur innleitt, fyrst allra fyrirtækja á Íslandi, byltingarkennda nýja þjónustu í vefverslun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Þar segir m.a. að  Snjallspjall ELKO sé lifandi og persónuleg verslunarupplifun þar sem viðskiptavinir fá samband við sölufulltrúa í verslunum ELKO í gegnum myndsímtal. 

Í snjallspjallinu fá viðskiptavinir söluráðgjöf rétt eins og þeir væru staddir í verslun ELKO. Með aðstoð þessarar stafrænu lausnar geta sölufulltrúar ELKO nú leiðbeint viðskiptavinum í rauntíma, sett vörur í samanburð og aðstoðað við vöruskoðun. Í lok samtals geta viðskiptavinir valið um að fá vörur sendar beint í körfu á elko.is og klárað svo kaupin þegar þeim hentar og valið úr úrvali afhendingarmáta.

Hægt að skoða vörur nánar í myndsímtali

„Okkur langaði að taka þjónustuna í vefverslun skrefinu lengra.  Við sjáum að mörg fyrirtæki eru fikra sig í átt að notkun spjallmenna en við höfum hins vegar ávallt lagt áherslu á persónulega þjónustu og viljum gefa viðskiptavinum kost á að tala við alvöru fólk,“ segir Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóri ELKO. Hann bendir á að ELKO hafi starfrækt þjónustuver síðan 2019 og svari þar öllum erindum hvaðan sem þau berast í gegnum miðlægt þjónustukerfi til klukkan níu á kvöldin. „Viðskiptavinir hafa verið mjög ánægðir með netspjallið og verður því gaman að sjá viðtökur við aukinni þjónustu í formi myndsímtala í vefversluninni,“ segir hann, en þau verða í boði á hefðbundnum opnunartíma ELKO.

Vefverslun fer ört vaxandi

Í dag er vefverslun ELKO önnur stærsta verslun fyrirtækisins, en gera má ráð fyrir að í veltu taki hún fram úr verslun ELKO í Lindum innan fimm ára. „Við vitum að fjöldi viðskiptavina fer inn á vefinn áður en þeir koma í verslun til að klára kaupin og eru þar ýmsar ástæður að baki. Oft vilja viðskiptavinir fá betri tilfinningu fyrir vörunni ásamt því að þeir vilja meiri upplýsingar frá sölufulltrúa til að tryggja að þeir séu að kaupa réttu vöruna,“ segir Arinbjörn. Með því að bjóða upp á myndsímtöl við sölufulltrúa í verslun segir hann í raun verið að mæta þörfum viðskiptavina og um leið stuðlað sé að samhæfðri þjónustuupplifun viðskiptavina óháð verslun, aðstæðum eða búsetu viðskiptavina.

Engin gögn geymd um samtölin

Um leið og ELKO styrkir þjónustu sína við viðskiptavini með snjallspjallinu er hugað að öryggi og persónuvernd. Viðskiptavinir þurfa að skrá sig inn á vef elko.is með rafrænum skilríkjum áður en hægt er að nota þjónustuna. Þeir þurfa hins vegar ekki að deila neinum gögnum með sölufulltrúa í verslun og engin gögn eru geymd að loknu myndsímtalinu. Snjallspjallið er glæný viðbót í flóru þekktari dreifileiða fyrirtækja á borð við verslanir, vefverslanir, símasölu, tölvupósta, póstverslun og annað slíkt. „Við erum stolt af því að brjóta ísinn hvað þetta varðar hér á landi,“ segir Arinbjörn.

 

Nýjast