Ekkert skipulagt félagsstarf fyrir hendi fyrir fólk með fötlun

Sif Sigurðardóttir formaður Þorskahjálpar á Norðurlandi eystra.
Sif Sigurðardóttir formaður Þorskahjálpar á Norðurlandi eystra.

Þroskahjálp á Norðurlandi eystra harmar þá staðreynd að ekkert skipulagt félagsstarf er fyrir hendi fyrir fólk með fötlun á Akureyri. Það gildi jafnt fyrir börn, ungmenni og fullorðið fólk. Í þeim tveimur félagsmiðstöðvum sem reknar eru í bænum, Birtu og Sölku sé gott starf unnið en um 85% þeirra sem það sækja eru eldri borgarar. Þroskahjálp á Norðurlandi eystra hefur skorað á Akureyrarbæ að gefa fullorðnu fólki með fötlun tækifæri til að sækja félagsmiðstöðvar á jafningagrundvelli.

Sif Sigurðardóttir formaður Þroskahjálpar á Norðurlandi eystra segir ekkert sérhæft tómstundastarf til staðar fyrir fólk með fötlun og sé þá saman hver aldurshópurinn sé. Ekki hafi gengið sem skyldi að sækja tómstundir til félagsmiðstöðvanna Birtu og Sölku og fyrir því séu ýmsar ástæður. „Okkar fólk passar ekki fyllilega inn í þann hóp sem sækir þessar félagsmiðstöðvar en það eru að stórum hluta eldri borgarar. Það þyrfti að vera eitthvað í boði fyrir fullorðna einstaklinga með fötlun sem sérsniðið er að þeim. Það er í raun óboðlegt að ekkert slíkt tilboð sé fyrir hendi. Það var til staðar í eina tíð, en eitthvað bakslag hefur orðið þarna eins og oft vill verða,“ segir Sif.

Þá nefnir hún að einu sinni í mánuði sé samvera í boði í Hæfingarstöðinni við Skógarlund en þangað sæki að mestu leyti þeir sem þar eru fyrir. „Það er búið að leggja niður sambýli, flestir í þessum hópi búa einir og það er mikil hætta fyrir hendi að fólk einangrist félagslega þegar ekki eru tækifæri á að fara út á meðal fólks. Því miður hefur þessi félagslega einangrun aukist hin síðari ár og það er brýnt að við spyrnum við og finnum tómstundir fyrir þessa íbúa Akureyrar sem eiga rétt á sínu félagsstarfi eins og aðrir,“ segir Sif. Nefnir hún að það sé sérstaklega bagalegt fyrir aldurshópinn 16 til 18 ára, sem hvergi eigi inni, fólk yfir 18 ára eigi kost á að sækja félagsmiðstöðvar Birtu og Sölku, „en þessi hópur ungmenna hefur ekki neitt við að vera.“

Mikilvægt að tilheyra hópi

Sif bætir við að svipuð staða sé uppi á teningnum þegar komi að börnum og ungmennum. Ekkert skipulagt félagsstarf sé fyrir hendi. Félagsmiðstöðvar séu starfræktar í grunnskólum og dæmi þess að stöðvarnar opni dyr sínar fyrir hópum sem vilji vera út af fyrir sig, en þeir sem búi við fötlun hafi ekki fengið þar inni. „Það er öllum mikilvægt að tilheyra hópi til þess að samsvara sig og þroska sjálfsmyndina en einnig til að uppfylla þörf fyrir félagslega samskipti sem og að forðast einangrun,“ segir í bókun Þorskahjálpar á NE tekin var fyrir á fundi fræðslu- og lýðheilsuráðs. Fól ráðið sviðstjóra að vinna málið áfram.

Nýjast