Eggaldinsalat, kjúklingur og frönsk súkkulaðikaka
Ferskt og gott líbanskt eggaldinsalat:
1 meðalstórt eggaldin
1 bolli smátt saxaðir ferskir tómatar
1 bolli smátt söxuð paprika (rauð eða gul)
1/2 bolli skalottulaukur eða rauðlaukur
Eitt til tvö smátt söxuð hvítlauksrif
1/2 bolli söxuð steinselja
Dressing:
Safi úr einni sítrónu
Msk. ólífuolía
Salt og pipar
Blandið öllu saman og smakkið til eftir smekk.
Aðferð:
Pikkið/gatið eggaldinið með gaffli og grillið í ofni eða útigrilli og snúið reglulega þar til það er orðið mjúkt að innan. Látið kólna aðeins, fjarlægið hýðið og stappið kjötið. Blandið öllu saman í skál. Hellið dressingunni yfir og blandið vel saman og kælið.
Þetta salat er mjög gott sem forréttur með góðu naanbrauði eða pítubrauði og hummus eða sem meðlæti með grilluðum mat.
Mexíkanskur kjúklingaréttur
Þessi réttur er einfaldur og nokkuð djúsí, tilvalinn á föstudagskvöldi þar sem ekki tekur langan tíma að laga hann. Við erum öll mjög hrifin af þessum rétti og bjóðum oft upp á hann þegar von er á gestum þar sem upplagt er að gera hann fyrirfram og skella svo bara í ofninn.
6 kjúklingabringur
Smá ólífuolía eða smjör til steikingar
Chili explosion
paprikukrydd eða faijtaskrydd.
1 krukka chunky salsasósa
1 askja Philadelphia light rjómaostur
1 Mexikóostur smátt skorinn
Nokkrar tortillaflögur
Rifinn ostur
smátt saxaður kóríander eftir smekk (má sleppa)
Aðferð:
Skerið kjúklingabringurnar í bita og kryddið eftir smekk og steikið upp úr smjöri eða olíu þar til þær hafa brúnast. Takið af pönnunni og leggið í eldfast mót. Hellið salsasósunni á pönnuna ásamt smátt skornum Mexíkóostinum. Setjið 1 dl af vatni í salsakrukkuna, lokið á og hristið og hellið á pönnuna. Hitið sósuna þar til osturinn er að mestu bráðnaður. Hellið yfir kjúklingabringurnar. Stráið yfir rifna ostinum og nokkrum lúkum af muldum tortillaflögum.
Bakið við 200 gráður þar til osturinn hefur tekið lit. Berið fram með góðu salati, tortillaflögum eða perlubyggi og heimagerðu Guacamole.
Guacamole:
Þessi uppskrift er mjög vinsæl hjá fjölskyldunni og hefur hún verið þróuð eftir okkar smekk. Hún er ekki alltaf eins en í grunninn er hún nokkurn veginn svona.
2-3 vel þroskuð og stöppuð avocado/lárperur
Smá sletta af ferskum sítrónusafa
2-3 hvítlauksrif smátt sökuð (meira fyrir þá sem elska hvítlauk)
½-1 rauður chilipipar fræhreinsaður (magn fer eftir smekk)
½ rauðlaukur smátt saxaður
1 tsk. cumin
salt og pipar eftir smekk
Ferskt saxað kóríander (má sleppa)
Aðferð:
Öllu blandað saman í skál, kryddað eftir smekk en Cuminið gerir gæfumuninn í þessari uppskrift.
Frönsk súkkulaðikaka með karamellu og salthnetum.
Þessa uppskrift fann ég á netinu og prófaði í 12 ára afmælisveislu Gabríels Freys sælkerakokks. Það er óhætt að segja að hún slóg í gegn bæði í afmælinu og hjá mínum kæru vinnufélögum og verður hún pott þétt bökuð aftur um páskana.
150 g smjör
150 g suðusúkkulaði, hakkað
3 stór egg
3 dl sykur
1½ dl hveiti
½ dl gott kakó
Aðferð:
Hitið ofninn í 175°. Klæðið form í stærðinni 20×20 cm með smjörpappír. Bræðið smjör og súkkulaði saman í potti yfir lágum hita. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Hrærið bræddu súkkulaðiblöndunni saman við eggjablönduna. Bætið hveiti og kakói út í og hrærið saman í slétt deig. Setjið deigið í formið og bakið í 20-25 mínútur eftir bakaraofni. Passa að baka hana ekki of lengi. Kakan á að vera þétt í sér, örlítið þurrari í kantinum og svigna í miðjunni. Látið kólna. Stráið salthnetum eða söltuðum Kasjúhnetum yfir kökuna og hellið uppáhalds karamellusósunni ykkar yfir. Berið fram með vanilluís eða þeyttum rjóma.
„Ég ætla að skora á samstarfskonu mína hana Krist ínu Sóleyju Sigusveinsdóttur, verkefnastjóra móttöku flóttafólks og gourmet-manneskju til að koma með uppskriftir í næsta blað.“