13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
„Ég er ekki til í að standa á brókinni með hálfónýtan slökkvibúnað“
Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti á fundi sínum í gær viðauka við þriggja ára fjárhagsáætlun til kaupa á nýrri slökkvibifreið. Norðurþing var eitt mörgum sveitarfélögum sem tóku þátt í útboði Ríkiskaupa vegna slökkvibifreiða. Búið var að gera ráð fyrri 75 milljóna króna fjárútlátum fyrir kaupunum en niðurstaða útboðsins er öllu hærri, eða um 91 m.kr. Byggðarráð samþykkti fyrir skemmstu að taka tilboðinu og vísaði málinu til sveitarstjórnar til að taka afstöðu til viðaukans.
Forseti sveitarstjórnar, Aldey Unnar Traustadóttir, fulltrúi V-lista lagðist gegn kaupunum og lagði fram eftirfarandi tillögu:
„Að Norðurþing dragi sig út úr útboði í samstarfi við Ríkiskaup um kaup á nýrri slökkvibifreið og jafnframt leggur undirrituð til að fallið verði frá þessari viðaukabreytingu fjárhagsáætlunar.“
Segir það tvískinnung að samþykkja viðaukann
Tillögunni var hafnað með átta atkvæðum gegn einu atkvæði Aldeyjar.
„Það er hreinn og beinn tvískinnungsháttur að samþykkja nú kaup á 91 milljóna kr. slökkvibíl á Húsavík sem er meira en 20% umfram áætlun, á sama tíma og hafnað er í skipulags- og framkvæmdaráði fjárfestingu til frístundahúss fyrir börn á Húsavík og framkvæmdum á lóð við leikskólann í Lundi á þeim forsendum að kostnaður hafi verið umfram áætlun,“ sagði Aldey í bókun sem hún lagði fram og lesa má í heild sinni hér.
Eitt tilboð barst
Einn aðili skilaði inn tilboði til í útboði Ríkiskaupa upp á 91 milljón. Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri benti á að miðað við ástandið í heiminum værir fyrirséð að heimsmarkaðsverð á hrávörum myndi hækka á næstu árum. Það væri áhætta fólgin í fresta þessari fjárfestingu um einhverja hríð og treysta um leið á að núverandi búnaður virki þar til ný bifreið fæst.
Miðað við að tilboðinu hafi verið tekið er gert ráð fyrir að nýr slökkvibíll verði afhentur um áramót 2023-24 og kemur til greina að skipta greiðslunni vaxtalaust á milli þessara tveggja ára.
Benóný Valur Jakobsson fulltrúi Samfylkingar ítrekaði skoðun sína frá því í byggðarráði að betra væri að ráðast í þessa fjárfestingu núna heldur en að hætta á að fjárfestingin verði dýrari eftir fáein ár. Hann lagði líka áherslu á mikilvægi þess að sveitarfélagið fjárfesti í nýrri slökkvibifreið.
„Það er brýn þörf á þessum bíl. Það er 4-5000 fermetra stórþaraverksmiðja í burðarliðnum og við erum að fara byggja 4500 fermetra hjúkrunarheimili sem krefjast þess að slökkvibúnaður okkar sé í lagi. Ég er ekki til í að standa á brókinni með hálfónýtan slökkvibúnað slökkviliðs ef svona húsnæði brennur. Þess vegna hafna ég tillögu VG og styð það að við kaupum slökkvibíl þó vissulega sér hárrétt að það sé margt annað sem þarf að gera,“ sagði Benóný.
Ekki spurning um hvort heldur hvenær
Kristján tók undir sjónarmið Benónýs og sagði að svona fjárfesting væri óumflýjanleg á 30-40 ára fresti og það væri að lenda á sveitarfélaginu núna. „Við eigum 32 ára gamla bifreið sem er ónothæf, erum með aðra 30 ára bifreið að láni og mér skilst að hún sé biluð núna. Eins og forseti veit þá er þetta ekki spurning um hvort heldur hvenær þarf að ráðast í þessi kaup,“ sagði Kristján Þór og bætti við að það væri á þeim grunni að hann hafnaði tillögu Aldeyjar um að draga sveitarfélagið út úr útboðinu.
Viðaukinn var samþykktur með átta atkvæðum. Aldey greiddi atkvæði á móti.