Dæmdur í tíu mánaða fangelsi
Karlmaður á Akureyri var dæmdur í tíu mánaða fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands eystra á dögunum fyrir umferða-og fíkniefnalagabrot. Ákærði var stöðvaður á bíl í lok júlí undir áhrifum áfengis og próflaus, en hann hafði áður verið sviptur ökuréttindum ævilangt. Nokkrum dögum síðar var hann tekinn með amfetamín og kannabisefni í fórum sínum. Fram kemur í dómi að ákærði eigi talsverðan brotaferil að baki og hefur m.a. níu sinnum verið dæmdur fyrir að aka undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Í dómnum var einnig áréttað um sviptingu ökuréttis ævilangt.
Þá var annar karlmaður á Akureyri dæmdur í 45 daga fangelsi í Héraðsdómi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir margvísleg brot. Ákærði var dæmdur fyrir að hrifsa til sín lyf í tvígang sem hann hafði fengið ávísað á sig án þess að greiða fyrir. Brotin áttu sér stað í Lyf og Heilsu á Glerártorgi og Apótekinu að Furuvöllum með nokkurra mánaða millibili. Þegar lögreglan handtók manninn í fyrra skiptið reyndist hann vera með opinn hníf innan á sér, um 20 sentímetra langan. Þá var hann einnig dæmdur fyrir að stela vodkapela úr Vínbúðinni að Hólabraut á Akureyri.
throstur@vikudagur.is