Búfesti riftir samningi við Faktabygg

Annað raðahúsanna á meðan framkvæmdir stóðu sem hæst. Mynd/epe
Annað raðahúsanna á meðan framkvæmdir stóðu sem hæst. Mynd/epe

- Yfirtaka byggingu tveggja raðhúsa á Húsavík - Undirverktakar tapa á fjórða tug milljóna

Húsanæðissamvinnufélagið Búfesti hsf. hefur rift samningi sínum við Faktabygg ehf. um byggingu raðhúsa á Húsavík. Þetta staðfesti Eiríkur H. Hauksson framkvæmdarstjóri Búfesta í samtali við Vikublaðið.

 Jarðskjálftavarnir urðu verkefninu að falli

Upphafleg verkáætlun gerði ráð fyrir að íbúðirnar yrðu tilbúnar til afhendingar um mánaðamót janúar/febrúar á þessu ári. Ljóst varð hins vegar sl. haust að tafir yrðu á afhendingu íbúðanna þegar í ljós kom að jarðskjálftavörnum var ábótavant. Um er að ræða tvö raðhús, hvort um sig með sex íbúðum.

„Þetta er hannað úti í Noregi af norskum verkfræðingum og þeir feiluðu á jarðskjálftaálagi.,“ útskýrði Árni Grétar Árnason, framkvæmdastjóri Faktabygg Ísland í samtali við Vikublaðið á síðasta ári. Það þurfti því að setja upp stálbita í húsin en fyrir var búið að koma fyrir límtré. Húsavík stendur á einu virkasta jarðskjálftabelti landsins og eru kröfur um jarðskjálfta varnir því strangari en víða annars staðar á landinu.

 Lögðu niður vinnu

Kostnaður vegna breytinganna hleypur á tugum milljóna. Búfesti hefur samkvæmt samningi greitt Fakta ehf. eftir framvindu en greiðslur hafa ekki skilað sér til undirverktaka sem hafa unnið verkið. Undirverktakar lögðu niður vinnu vegna vanefnda aðalverktakans fyrir tæpum tveimur mánuðum og standa húsin því enn ókláruð. Íbúðunum hefur þegar verið úthlutað og hafa tilvonandi íbúar greitt staðfestingagjald. Fyrstu sex íbúðirnar eru langt komnar og vantar aðeins yfirborðsfrágang til að þær verði tilbúnar til afhendingar.

Fjárvana aðalverktaki

Eiríkur

Eiríkur segir að nú sé allt kapp lagt á að klára verkið. Með samstilltu átaki ættu fyrstu sex íbúðirnar að klárast á einni vinnuviku takist samningar við verktaka. „Þetta hefur því miður það í för með sér að undirverktakar eiga nú kröfur á félag sem er líkleg fjárvana. Við að sjálfsögðu höfum boðið öllum verktökunum að vinna beint fyrir okkur. Við erum núna í því að ræða við verktakana til að flýta fyrir. Það er í myndinni að greiða þeim einhverskonar bónus sem þeir fá þá upp í kröfurnar sem þeir eiga á Faktabygg. Við höfum engan áhuga á því að hafa meistaraskipti, við erum ánægð með undirverktakanna og viljum hafa þá með til að klára verkið með okkur. Það verður allt kapp lagt á að klára verkið svo íbúar Húsavíkur sem eru að fara flytja inn í íbúðirnar verði ekki fyrir frekari töfum,“ segir hann.

 Tugir milljóna lenda á undirverktökum

Vikublaðið ræddi við einn af undirverktökunum sem vildi ekki koma fram undir nafni. Hann var ómyrkur í máli og kallaði viðskiptin klúður frá a-ö. „Það er ljóst að það eru allir hlutaðeigandi að fara tapa verulegum fjárhæðum á verkefninu.“

Þá voru að stærstum hluta sömu undirverktakar sem unnu við byggingu á parhúsi að Stórutjörnum í Þingeyjarsveit fyrir Faktabygg. „Það hefur ekki verið gert upp við okkur vegna þess heldur,“ segir verktakinn.

„Þeir hjá Búfesta vissu síðast liðið haust að það væru veruleg vandræði framundan þegar kostnaður vegna jarðskjálftavarna lá fyrir. Faktabygg segist ekki ætla að borga kostnaðinn nema að hluta og Búfesti ætlar ekki að borga hann. Kostnaðurinn lendir þá á okkur undirverktökunum,“ segir hann.

Vaxtakostnaður og tekjutap

Samkvæmt upplýsingum Vikublaðsins eiga undirverktakar kröfur upp á 31 milljón króna á Faktabygg. Tjón Búfesta er hins vegar mun hærra þegar upp er staðið. „Okkar tjón verður allt að 61 milljónir króna. Þetta er á fjórða tug milljóna í hreinum útgjöldum eins og staðan blasir við í dag. Svo er annar kostnaður sem er stærri. Við áttum að fá fyrra húsið afhent í febrúar – mars. Eins og staðan er núna verður fyrra húsið afhent í lok ágúst en það síðara í október. Við erum með þetta á brúarlánum þannig að hver vika í töfum kostar okkur hunduð þúsund í vaxtakostnað og þá á eftir að reikna með töpuðum tekjum,“ útskýrir Eríkur en bætir við að leiðinlegast þyki honum að undirverktakar sitji uppi með sitt tjón.

 Vonsvikinn með móðurfélagið

Verktakinn lýsir yfir vonbrigðum með að móðurfélag Faktabygg ehf. í Noregi skuli ekki setja aukið hlutafé í dótturfélag sitt.

Fakta 1 í Noregi stofnaði árið 2018 dótturfélagið Faktabygg Ísland ehf. ásamt Árna Grétari Árnasyni sem er framkvæmdastjóri íslenska félagsins. Eigendur félagsins lögðu því til 500 þúsund krónur í hlutafé. Kristján Eymundsson er eigandi tæplega 75% hluta í Fakta1 AS. Dótturfélög Fakta1 í Noregi eru þrjú; Fakta Hotell Invest AS, Fakta Bolig AS og Faktabygg AS. Raðhúsin umræddu eru einingahús en einingarnar eru framleiddar af Faktabygg AS í Noregi. Kristján stofnaði Faktabygg árið 1997 og er í dag meirihlutaeigandi í gegnum hlut sinn í Fakta 1 AS.

Hugmynd Búfesti og Faktabygg gekk í meginatriðum út á að yfirfæra snjalla hönnun og framleiðslutækni Faktabygg og norskra samstarfsaðila  yfir til Íslands. 

„Ef að yfirlýsingar Faktabygg voru réttar um styrk móðurfélagsins í Noregi, þá ætti félagið að leggja dótturfélagi sínu aukið hlutafé til að gera upp við undirverktakana. Það var það sem mönnum var talin trú um að yrði gert. Þetta væri grimmsterkt félag í Noregi sem væri að fara hasla sér völl á Íslandi og byggja fleiri hundruð íbúðir,“ útskýrir verktakinn.

Samkvæmt upplýsingum frá Faktabygg Ísland ehf. er lögfræðingur félagsins að fara yfir málið og næstu skref verði tekin í framhaldi af því.

 

 

 

 

Nýjast