27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
BSO með frest fram á haust til að rífa húsið við Strandgötu
mth@vikubladid.is
„Það er engin lausn í sjónmáli sem stendur,“ segir Margrét Imsland framkvæmdastjóri Bifreiðastöðvar Oddeyrar, BSO, en á liðnu ári var fyrirtækinu gert að fjarlæga húsið sem hýsir starfsemina fyrir 1. apríl. BSO hefur nú fengið frest til 1. október næstkomandi til að fjarlæga hús sitt við Strandgötu en framtíðarstaðsetning hefur enn ekki fundist. „Þetta er pattstaða, við höfum bent á staði og bærinn á aðrar en ekki náð sameiginlegri niðurstöðu.“ Húsið þarf að víkja vegna nýrrar uppbyggingar á svæðinu.
Margrét segir að næstu mánuðir verði nýttir til að leita að nýjum stað og vonandi náist farsæl lausn fyrir alla. „Við vitum að þetta er vinsæll og dýr reitur í bænum og höfum ekki neitt á móti því að víkja af honum. En það er auðvitað súrt í broti að bærinn ætlast til þess að við rífum húsið á eigin kostnað og okkur gert að hypja okkur á brott bótalaust. Né heldur virðist hentug ný staðsetning vera í boði fyrir okkur. Þetta er heilmikil klípa,“ segir hún en fyrirtækið hafi lagt út í töluverðan lögfræðikostnað vegna málsins.
Hún segir mikið um að fólk komi við og eigi alls konar erindi, það fái að bíða í afgreiðslunni eftir strætó, bæði innanbæjar og utan og eins komi ferðamenn í töluverðum mæli til að leita upplýsinga um t.d. norðurljósa – eða hvalaskoðunarferðir eftir að upplýsingamiðstöð var lokað. „Við reynum að gera okkar besta og sinna öllum. Draumurinn er að það verði hægt að setja upp eins konar samgöngumiðstöð þar sem allir væru á sama bletti, leigubílar, strætó og litlu fyrirtækin sem bjóða upp á slíkar ferðir,“ segir Margrét.
20 stöðuleyfi en einungis 14 í akstri núna
Alls eru 20 stöðuleyfi á BSO, en staðan þannig að 16 leyfi eru virk og þar af eru einungis 14 í akstri um þessar mundir. Margrét segir heimsfaraldurinn hafa komið illa við reksturinn og eigi sinn þátt í fækkuninni. „Þetta hefur verið strembið og mikið púsl að koma öllu heim og saman. En líklega ekki neitt hjá því sem vænta má á komandi sumri, fjöldi ferðamanna í bænum, innlendra og erlendra á næstu mánuðum gæti verið 250 til 300 þúsund og öllum ljóst að 14 leigubílar eiga meira en fullt í fangi með að anna væntanlegri eftirspurn,“ segir Margrét. Hún bætir að einnig sé undirmannað í afgreiðslunni, margbúið sé að auglýsa eftir fólki en enginn svari. „Það er eins og fólk sé hrætt við að fara út á vinnumarkaðinn núna, ég hef heyrt þetta frá fleiri fyrirtækjum sem eiga í erfiðleikum með að fá fólk í vinnu. Við sjáum fyrir okkur að álagið muni aukast til muna, en auðvitað er það þannig að enginn getur unnið sólarhringum saman án hvíldar.“ Við hreinlega þurfum bæði fólk í afgreiðsluna og nýja leigubílstjóra inn á stöðina . Og vil ég því hvetja alla sem hafa áhuga á að vinna sem leigubílstjóri endilega koma og spjalla við okkur , við hljótum að geta fundið lausn saman .