20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Breiða út faðminn fyrir golfara framtíðar
Nú er rétt um ár síðan Golfklúbbur Húsavíkur opnaði nýjan og glæsilegan golfskála við Katlavöll. Nýja aðstaðan er algjör bylting í golfiðkun á Húsavík en félagar í klúbbnum eru alls um 150. Nýlega var sett á fót sérstök nýliðunarnefnd þar sem markmiðið er að fjölga virkum meðlimum í klúbbnum verulega. Blaðamaður Vikublaðsins ræddi við þrjár konur úr nefndinni á dögunum í blíðskaparveðri á pallinum hjá golfskálanum en þar er opinn veitingastaður og kaffihús alla daga.
Svala Hrund Stefánsdóttir, Dóra Ármannsdóttir og Hulda Þórey Garðarsdóttir voru allar mjög gíraðar þegar þær tóku á móti blaðamanni í síðustu viku, enda fyrsti hlýinda dagurinn í nokkurn tíma og þær hefðu eflaust viljað vera sveifla golfkylfum. En það kom fljótt í ljós að ástríða þeirra fyrir því að tala um golf er engu minni en fyrir því að lækka forgjöfina.
Félagsmiðstöð fyrir alla
Við nýtum að sjálfsögðu góða veðrið og fáum okkur sæti úti á palli með útsýni yfir Katlavöll. Þessar þrjár glæsilegu konur brenna augljóslega fyrir áhugamál sitt og það er ekki síst félagslegi þátturinn sem er þeim mikilvægur.
„Það má líkja þessu við eina stóra fjölskyldu,“ segir Hulda Þórey og bætir við að í golfinu hafi fólk sem ekki þekktist áður verið að tengjast sterkum böndum.
Dóra grípur orðið og segir að það sýni líka kraftinn sem býr í fólki hversu mikill fjöldi sjálfboðaliða lagði sitt af mörkum við að standsetja húsið. „Fólk vann hér myrkranna á milli mánuðum saman,“ segir hún.
Bæta ímynd golfsins
Markmiðið með nýliðunarnefnd segja þær að sé eins og nafnið gefi til kynna til að fjölga meðlimum en þá sé ekki síst mikilvægt að hrekja lífseigar mýtur um að golfið sé aðeins fyrir fá útvalda. „Markmiðið okkar er að kynna fyrri fólki hvað þetta er æðislegt og að golfið sé fyrri alla, óháð kyni og aldri. Að þetta sé ekki snobb fyrir fólk á eftirlaunum,“ útskýrir Svala og bætir við að virkir golfarar á Húsavík séu allt frá grunnskólaaldri upp í tíræðisaldur.
Fyrir skemmstu var haldið nýliðakvöld þar sem nefndin sá um kynningu á golfíþróttinni og því félagsstarfi sem á sér stað innan klúbbsins. Það var ótrúlega vel heppnað segir Svala en um 35 manns mættu, fengur áhugaverða kynningu á golfíþróttinni og starfi GH.
Hulda Þórey bætir við að nú þegar þessi glæsilega aðstaðan sé komin í notkun þá sé áherslan hjá nýliðunarnefnd að teygja sig til allra. „Að hér sé íþrótta og félagsstarf sem getur höfðað til allra. Hér er líka frábær funda og viðburða aðstaða. Við erum komin með þennan flotta sal og erum að sjá sjálf um veitingareksturinn. Svo er æfingaaðstaðan hér innandyra með golfhermunum algjörlega til fyrirmyndar,“ segir Hulda og bætir við að það sé mikill hugur í fólki en áskorunin sé að reyna gera ekki allt í einu. „Í staðin ætlum við að gera vel það sem við gerum. Allt sem okkur langar að gera það mun koma en við þurfum að temja okkur að gleypa það ekki allt í einu,“ segir hún og hlær.
Barna og unglingastarf
Eitt af því sem hefur verið til mikillar fyrirmyndar hjá GH er barna og unglingastarfið en ungum golfurum hefur í kjölfarið fjölgað talsvert. Klúbburinn hefur haldið úti vandaðri kennslu fyrir börn á hverju sumri í samtarfi við Golfklúbb Akureyrar en nú er GH kominn með sinn eigin menntaða golfkennara, Karl Hannes Sigurðsson en hann heldur úti kennslunni í sumar með aðstoð þeirra stálpuðu unglinga sem hafa verið að koma upp í gegnum starfið.
„Það fylltist í barna og unglingahópana okkar í sumar en það eru um sjö í hverjum hópi,“ segir Þórey og bætir við að það hafi einnig fyllst á nýliðanámskeið fyrir fullorðna. „Við fórum strax í gang með annað og við erum að byrja skipuleggja námskeið númer þrjú,“ útskýrir hún.
Æfingaaðstaðan inni með golfhermum af bestu gerð kemur sér vel í ungmennastarfið. „Það er rosalegur munur að hafa hermana, af því sumrin eru allt of stutt hér á Íslandi. en líka til að ná inn breiðari hópi fólks í golfið. Það eru t.d. margir sem geta tengt þetta við tölvuleiki,“ segir Hulda Þórey og grunnskólakennarinn Svala bætir við að hún sjái tækifæri í því að koma golfinu inn skólastarfið. „Ég gæti séð fyrir mér að það væri hægt að bjóða upp á skylduvalgrein í golfhermi fyrir unglingastig Borgarhólsskóla,“ segir hún.
Hulda Þórey bendir einnig á að það séu sóknarfæri í því að kynna vetrarstarfið hjá GH til að auka á framboð ungmenna að íþróttastarfi og afþreyingu.
Ráðast gegn kynjahallanum
Þær stöllur viðurkenna að enn sé nokkur kynjahalli meðal golfiðkenda, karlmenn séu enn í meirihluta og það sé eitthvað sem þær hyggjast jafna.
„Við ætlum við að halda áfram með það sem gafst svo vel í fyrra eins og kvennakvöld á þriðjudagskvöldum. Við erum svolítið að reyna ná betur til kvenna því það er enn smá kynjahalli hjá okkur,“ segir Dóra og bætir við að það sé liður í því að kynna golfið sem íþrótt fyrir alla. „Þetta er líka bara frábær leið fyrir hjón eða pör til að verja gæðatíma saman.“
Nýliðun að bera ávöxt
Þær eru sammála um að þegar sé orðið vart við aukningu á iðkendum eftir að nýliðunarnefnd tók til starfa en það sé langhlaup sem muni skila sér jafnt og þétt.
„Miðað við fjölda fólks sem er að mæta á völlinn sjáum við að það er aukning á félögum. Það er líka svo mikil breyting upp á nýliðun að gera að hafa þessa aðstöðu. Þegar við vorum í gamla skúrnum hérna hinu megin, þá vissi nýtt fólk sem var að koma ekki alveg hvernig það ætti að bera sig að þegar það var að koma í fyrsta skiptið .
Þessi aðstaða býður fólk svo velkomið,“ útskýrir Hulda Þórey og Dóra bætir við að aðkoman að klúbbhúsinu sé líka orðin allt önnur með malbikuðum vegi í stað moldaveganna hér áður fyrr.
Mikið aðdráttarafl Katlavallar
Katlavöllur hefur undanfarin ár haft ótrúlegt aðdráttarafl fyrir mótahald og í sumar verður áframhald þar á en tvö risamót verða haldin auk fjölda minni móta.
„Við héldum Blush-mót í fyrra en það var þriggja daga mót sem var pakkfullt í og það er orðið fullt í mótið í sumar þó að það hafi ekkert verið auglýst,“ útskýrir Hulda Þórey og bætir við að á mótinu í fyrra hafi komið aðilar sem fannst svo skemmtilegt þeir settu upp annað mót sem er núna um helgina. „Það er Sjávargrillið Open og það er að verða fullt á það sem er alveg frábært því við erum svo snemma í sumrinu og hefði alveg getað verið hræðsla við að völlurinn væri ekki orðinn nógu góður. Þessu getum við verið svo stolt af að golfarar landsins eru í síauknum mæli farnir að vilja koma hingað til að spila. Það segir mikið um starfið sem hefur átt sér stað í kúbbnum undan farin ár,“ segir Hulda Þórey stolt.
Golfið að blómstra
Þær eru sammála um að tilfinningin sé sú að aukinn áhugi á golfi sé ekki bara einhver tímabundin tískusveifla heldur sé íþróttin einfaldlega að springa út og blómstra. Það sýni sig sérstaklega í því að aldursbilið sé sífellt að breikka og kynjahallinn sé að dragast saman.
„Það eru svo mikil lífsgæði fólgin í því að hafa þennan golfvöll, þennan golfskála, aðgengi að menntuðum golfkennara og skemmtilegri íþrótt sem allir geta stundað óháð aldri eða getu. Skilaboðin eru þau að við erum búin að opna golffaðminn og viljum bjóða alla Húsavíkinga og nærsveitunga í þennan hlýja og skemmtilega faðm,“ segir Dóra að lokum og hinar taka undir.