Boltinn alltaf í fyrsta sæti

Anna Rakel knattspyrnukona og nemi í líftækni við HA.
Anna Rakel knattspyrnukona og nemi í líftækni við HA.

Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem unnið var af nemum í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

Anna Rakel Pétursdóttir er 21 árs gömul knattspyrnukona sem leikur með Linköpings FC í efstu deild Svíþjóðar en liðið endaði í fimmta sæti sænsku deildarinnar á nýafstöðnu tímabili. Anna Rakel á fjölmarga leiki að baki í efstu deild hér heima og hefur þar að auki spilað 6 landsleiki fyrir Íslands hönd.

Anna var algjör lykil leikmaður í liði Þór/KA sem varð Íslandsmeistari sumarið 2017, og það sama ár var hún kjörin Íþróttamaður Knattspyrnufélags Akureyrar. Anna er sem stendur búsett í Linköping sem er borg í suðurhluta Svíþjóðar. Hún segir að það hafi verið töluverð breyting að færa sig um set og bendir í því samhengi á stærðarmun Linköping og Akureyrar.

,,Linköping er töluvert stærri heldur en litla Akureyri en það búa tæplega 160.000 manns í borginni svo að það var mikil breyting að koma í þennan mannfjölda þegar ég hafði búið allt mitt líf á Akureyri þar sem búa tæplega 20.000 manns”. Hún segir að sér hafi gengið vel að aðlagast lífinu í Svíþjóð og tekur fram að félagið hafi tekið sér með opnum örmum. ,,Leikmenn og starfsmenn félagsins tóku strax vel á móti mér en það skiptir miklu máli að finna fyrir svona stuðningi þegar maður er að aðlagast í nýju liði og í nýju landi.”

Markmiðið alltaf atvinnumennska

Hún segir að markmið sitt hafi ávalt verið að komast í atvinnumennsku erlendis og í rauninni hafi hún verið búin að hugsa um það allt frá unga aldri.

,,Mér líður mjög vel hérna í Svíþjóð og ég hef oft sagt að ég hafi verið búin að undirbúa mig fyrir það að flytja erlendis til þess að spila fótbolta frá því ég var aðeins 6 ára." Jafnframt segir hún að þó nokkur gæðamunur sé á íslensku deildinni og þeirri sænsku og þar sé meðal annars lögð mun meiri áhersla á leikskipulag. Hún bendir einnig á að umgjörðin í kringum lið Linköpings FC sé framúrskarandi. ,,Deildin er mjög jöfn eins og sást á síðasta tímabili þar sem liðin í neðri hluta deildarinnar stóðu vel í liðunum á toppi deildarinnar. Það er mikið lagt upp með taktík, bæði á fundum fyrir æfingar og svo inn á æfingunni sjálfri þannig að allir leikmenn vita nákvæmlega hvað þeir eiga að gera þegar þeir lenda í ákveðnum aðstæðum inni á vellinum. Umgjörðin hér er til fyrirmyndar, við erum til dæmis með alveg sér aðstöðu bara fyrir okkur leikmenn og þjálfara þar sem er eldhús, fundarsalur og tæki til afþreyingar.“

Jákvæð þróun í kvennaboltanum

Þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs gömul hefur Anna Rakel töluverða reynslu af fótbolta í meistaraflokki. Hún lék sinn fyrsta leik fyrir Þór/KA sumarið 2014 í 3-2 sigri á Selfossi, þá einungis 15 ára gömul. Hún segist hafa upplifað talsverðar breytingar í kvennafótboltanum frá því að hún skaust fram á sjónarsviðið fyrir um fimm og hálfu ári síðan og bendir á að mun meira sé lagt í umfjöllun um kvennafótboltann í dag en áður tíðkaðist. ,,Hún (umfjöllunin) hefur verið að aukast mikið síðustu ár og vona ég að hún haldi áfram að þróast í sömu átt. Það skiptir miklu máli fyrir íslenskan fótbolta, og þá sérstaklega íslenskan kvennafótbolta að það sé fjallað um deildina, úrslit og fleira sem því tengist.”

Lærir Líftækni í HA  

Samhliða fótboltanum er Anna Rakel að læra Líftækni í fjarnámi frá Háskólanum á Akureyri. Hún hefur nóg á sinni könnu við að púsla saman knattspyrnunni og háskólanáminu en segir þó að vel gangi. Hún tekur þó fram að fótboltinn sé alltaf í fyrsta sæti. ,,Ég er mjög metnaðarfull í öllu sem ég tek mér fyrir hendur, þannig að mig langar að standa mig vel í bæði fótboltanum og náminu. Þrátt fyrir það set ég alltaf fótboltann númer eitt en mér finnst samt mikilvægt og gott fyrir mig að stunda nám samhliða fótboltanum. Ég vil hafa nóg að gera þannig að þetta hentar mér mjög vel”.

Aðspurð segir Anna Rakel að erfitt sé spá fyrir um hvað framtíðin hafi upp á að bjóða. Samningur hennar við Linköping FC sé runnin út en margir spennandi möguleikar séu í stöðunni. Hún er í viðræðum við lið bæði í Svíþjóð, á Íslandi og í öðrum löndum. Ljóst er að áhugavert verður að fylgjast með framvindu mála hjá þessari hæfileikaríku fótboltakonu.

-VM

Nýjast