13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Bókarkynning - Ókei
Út er komin bókin ÓKEI — uppruni og saga þekktasta orðatiltækis í heimi. Höfundur er Sigurður Ægisson og Hólar gefa út.
OK eða O.K., ýmist ritað með lág- eða hástöfum, er sagt vera þekktasta útflutningsafurð Bandaríkjanna, fyrr og síðar. Alla vega er þessi stafasamsetning fyrir löngu komin um gjörvalla Jörð og mun í ofanálag vera fyrsta orðið sem heyrðist mælt á Tunglinu. Það er ekki lítið afrek. Hvað með aðrar reikistjörnur verður, á eftir að koma í ljós.
Í Vesturheimi fæddi það bráðlega af sér okay og okey og eftir það hafa fjölmargar útgáfur bæst við. Til Íslands hefur orðið eflaust borist sem talmál, eins og víðast hvar annars staðar, en ekki er ljóst nákvæmlega hvenær. Á prenti sést það hins vegar fyrst á 4. áratug 20. aldar. Síðar eignaðist það afkvæmi hér — sambandið allt í kei(inu). En hvernig byrjaði þetta allt? Það er spurningin. Í bókinni, sem er rúmar 300 blaðsíður að lengd, eru reifaðar 50 kenningar, sem allar hafa það að markmiði að reyna að svara henni. Farið er um allan heim í þeim tilgangi, m.a. til fjölmargra landa Afríku, Evrópu og jafnvel Asíu, og kafað langt aftur í mannkynssöguna, allt til daga Forn-Grikkja, Rómverja og Spartverja, og að auki leitað aðstoðar í þeirri glímu til Ástralíu og Suður-Ameríku.
Upphafið að rannsókn höfundar er atvik eða minning úr enskutíma í Menntaskólanum á Akureyri, en hann var þar í námi frá 1974 til 1978. O.K. hafði borist í tal einhverju sinni og aðdragandinn að fæðingu þess, og hann langaði frá því andartaki að lesa sér betur til um upphaf þessa orðalags eða hvað á að nefna blómið — frasa, orðatiltækis, setningarliðar, talsmáta — sem þá var tekið að festa rætur í íslensku máli. Það hafði reyndar komið mjög við sögu haustið 1950, hafði verið notað til að koma áleiðis afar mikilvægum skilaboðum, eftir að Geysir, millilandaflugvél Loftleiða, hafði brotlent á Vatnajökli, með sex manna áhöfn. Þegar leitarmenn á Catalina-flugbátnum Vestfirðingi fóru þar yfir, gaus allt í einu upp reykstrókur af báli sem áhöfn áhöfn Geysis hafði kveikt til að vekja á sér athygli þegar flugvél myndi nálgast. Orðrétt segir flugstjórinn, Jóhannes Markússon, þegar hann rifjar þetta upp: „Ég lækkaði flugið og þá sáum við áhöfnina við flakið. Við trúðum varla okkar eigin augum. Þegar við flugum yfir sáum við að áhöfnin gaf okkur merki um að allir væru á lífi; hún myndaði OK.“
Þetta hefur verið magnþrungið andartak.
Tveimur árum áður hafði Steinn Steinarr notað það í einu af sínum allra þekktustu ljóðum, þegar hann kvað:
Ég byggði mér hús við hafið
og hafið sagði: O.K.
Hér er ég, og ég heiti
Hudson Bay.
Þetta er sumsé orðið hluti af íslenskum veruleika ekki nema rúmum áratug eftir að það birtist hér á framandi grund.
Eftir að hafa farið í tímaröð í gegnum hinar ýmsu kenningar um þessa smíð, þar sem byrjað er á þeirri elstu, telur höfundur sig í lokin geta bent á hið rétta upphaf og styður það heimildum, sem enginn hefur til þessa bent á eða notað í þeim tilgangi, og þá jafnframt leiðrétt þann misskilning sem verið hefur ríkjandi í uppsláttarritum allt frá því á 7. áratug 20. aldar, um að orðatiltækið sé að rekja til Boston og nágrennis á árunum 1838–1839. Það er nefnilega töluvert eldra og komið úr allt annarri átt.