Blessuð fermingarbörnin

Svavar Alfreð Jónsson.
Svavar Alfreð Jónsson.

Nú er árstími ferminganna. Alltaf er gaman og gefandi að spjalla við fermingarbörnin. Tilsvör og athugasemdir þeirra eru oft óvænt og skemmtileg. Það eru mikil forréttindi að fá að vinna með þessu unga fólki. 

Ungmennin eru misvel að sér um kristna trú og maður finnur að trúarbragðafræðslan er ekki ofarlega á blaði í öllum grunnskólum. Það er auðvitað áskorun fyrir okkur sem sjáum um að uppfræða fermingarbörnin. 

Eitt sinn hlýddi ég ungum manni yfir boðorðin tíu. Uppskeran var rýr. Hann kunni hreinlega ekkert. Þegar hann sá að ég var nú frekar miður mín yfir því reyndi hann að klóra í bakkann og í úrslitatilraun sinni til að gera prestinum til geðs spurði hann: 

„Heyrðu. Er ekki eitt svona: Eigi skaltu hneppa mann í fangelsi?“ 

 Ástandið var ekki betra á dreng nokkrum sem ég sat með örfáum dögum fyrir fermingarathöfnina hans. Hann kunni bókstaflega ekkert, hvorki boðorð né annað þrátt fyrir ítarlegar og langar yfirheyrslur og iðraðist einskis. Þegar ég að lokum kastaði til hans björgunarhring og sagði að hann hlyti nú að kunna Faðirvorið og gæti þá fermst upp á það svaraði hann: 

„Aldrei heyrt á það minnst.“  

Stuttu eftir bankahrunið og mitt í allri gjaldþrotaumræðunni eftir þau ósköp hlýddi ég stúlku yfir boðorðin tíu. Hún kunni þau alveg prýðilega. Ég spurði hana hvort hún kannaðist ekki við eitt sem fjallaði um hvíldardaginn. „Jú,“ svaraði hún bragði, „halda skaltu hvíldardaginn heilagan“ og bætti svo við: 

„Fólk hefur hvort sem er ekki efni á öðru.“ 

 

Nýjast