Bílastæði við Flugsafnið ekki fyrir flugfarþega

Bílastæði við safnið eru auðvitað bara ætlum gestum þess og starfsfólki
Bílastæði við safnið eru auðvitað bara ætlum gestum þess og starfsfólki

„Það skiptir okkur máli að fólk virði að bílastæðin eru ætluð gestum okkar og þeim sem starfa á safninu, starfsfólki og sjálfboðaliðum,“ segir Steinunn María Sveinsdóttir safnstjóri Flugsafns Íslands á Akureyrarflugvelli.

Undanfarið hefur borið á því að flugfarþegar leggi bílum sínum við Flugsafnið dögum, jafnvel vikum, saman. Flugsafnið vakti af því tilefni athygli á því að bílastæði við Flugsafnið eru einungis ætluð þeim sem þangað eiga erindi, gestum og starfsfólki. Sett verða upp skilti á næstu dögum með þeim upplýsingum. Gjaldskylda var tekin upp á bílastæðum við Akureyrarflugvöll í fyrrasumar.

Einnig er vakin athygli á því að hætta er á snjóhruni af þaki hússins þegar þannig viðrar og eru gestir varaðir við því með merkingum nærri inngangi safnsins. Steinunn María segir að fyrir nokkrum árum hafi snjór hrunið af þakinu og ofan á bíl sem skemmdist. Það hafi verið óskemmtileg reynsla. Skilti var í kjölfarið komið upp við inngang í safnið en hún nefnir að það geti farið fram hjá fólki sem leggur við safnið en á þangað ekki erindi.

Ekki mörg bílastæði við safnið

„Sem betur fer virða langflestir flugfarþegar það við okkur að leggja ekki bílum sínum við safnið, en undanfarið hafa þó verið 1-2 bílar í viku á stæðinu hjá okkur sem eru safninu óviðkomandi. Bílastæði við Flugsafnið eru ekki mörg og flestir okkar gesta koma akandi á eigin bíl. Almenningssamgöngur eru takmarkaðar inn á flugvöll og safnið ekki beinlínis í göngufæri,“ segir Steinunn María.

Nýjast