Bílastæði á flugvöllum – Ókeypis í fyrstu fjórtán klukkutímana
Ekkert gjald verður rukkað fyrir að leggja bílum við flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum fyrstu 14 klst en óhætt er að segja að áform ISAVIA Innanlandsflugvalla um að hefja gjaldtöku á bílastæðum hafi vakið hörð viðbrögð. Þetta kom fram í tilkynningu sem Isavia sendi frá sér í dag.
Óhætt er að fullyrða að mikill styr hefur staðið um fyrirhugaða gjaldtöku. Fyrst átti aðeins að vera frítt að leggja við flugvellina í 15 mínútur en eftir deilur og nokkuð hörð skoðanaskipti er niðurstaðan sú að fyrstu 14 klst verða gjaldfrjálsar.
Gjaldtaka hefst á morgun á flugvöllunum sem um ræðir.
Á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum er eitt gjaldsvæði. Fyrstu 14 klukkutímarnir eru gjaldfrjálsir, síðan kostar sólarhringurinn á stæði 1.750 krónur. Eftir sjö daga lækkar gjaldið í 1.350 krónur og eftir 14 daga kostar sólarhringurinn 1.200 krónur.
Ingibjörg Isaksen fagnar í færslu á Facebook því að hafa náð fram þessari breytingu, en hún hafði forgöngu um að flestir þingmenn Norðaustukjördæmis fróu fram á fund með ISAVIA um stöðuna. Ekki varð af fundinum en eftir samtöl á milli aðila er niðurstaðan sú sem hér greinir frá.
,, Það sem sumum finnst lítið mál getur verið stórt mál í hugum annarra sem í þessu tilfelli er landsbyggðin.
Það er því þakkarvert að sjá Isavia innanlands taka tillit til ábendinga íbúa og okkar þingmanna varðandi gjaldtöku á bílastæðum. Með því að lengja tímann með þessum hætti í 14 klst. á Akureyri og Egilsstöðum gerir það fólki betur kleift að nýta sér flugsamgöngur til þess að sækja þá þjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð.
Ég hef þær upplýsingar að eftir að myndavélar voru settar upp fyrir nokkrum vikum sýni óformlegar mælingar fram á að 85% þeirra sem nýta sér flugsamgöngur frá Egilsstöðum koma heim samdægurs. Þessi breyting mun því ná til stórs hluta einstaklinga sem nýta sér þjónustuna. Það verður áhugavert að sjá hvernig þetta kemur til með að þróast þegar mælingar hafa staðið yfir í lengri tíma og varpa skýrari mynd á notkunina.” Segir í færslu Ingibjargar.
Á vefnum, nánar á eftirfarandi slóð má finna upplýsingar um gjaldtökuna.