Biðlisti eftir félagslegu húsnæði hefur lengst
Biðlistinn eftir félagslegu húsnæði hefur lengst milli ára og segir Hulda Elma Eysteinsdóttir formaður Velferðarráðs að biðlisti sé helst eftir minni íbúðum en hún horfi björtum augum framá við og sjái mörg jákvæð teikn á lofti um að breyting verði á.
Elma segir að margt sé á döfinni. Framkvæmdir við búsetukjarna í Hafnarstræti séu að hefjast, tvö smáhýsi verði tekin í notkun í Sandgerðisbót á næsta ári og þá er hafinn undirbúningur við búsetukjarna í Nonnahaga.
„Við mátum þörfina mesta á búsetukjörnum fyrir fatlaða og á sérstökum úrræðum og því fóru þær framkvæmdir í forgang hjá okkur,“ segir hún. „Gangi allar þessar framkvæmdir eftir munum við taka í notkun fleiri íbúðir inn í félagslega kerfið en verið hefur síðastliðin ár. Hér á Akureyri erum við að gera vel í samanburði við önnur sveitarfélag. Við erum með yfir 4% íbúða í félagslega kerfinu og næsthæsta hlutfallið á eftir Reykjavíkurborg ef horft er til stóru sveitafélagana.“
Elma segir að vinna við umbætur á félagslega kerfinu sé hafin, en slíkt sé nauðsynlegt til að gera að gera kerfið sjálfbært en þannig megi fjölga íbúðum enn frekar. Bendir hún einnig á að til viðbótar við þær íbúðir sem koma inn í félagslega kerfið hafi verið gerður samningur við Brynju leigufélag um 32 nýjar íbúðir og hafa fyrstu fjórar þeirra þegar verið afhentar. Fleiri koma til afhendingar á næstunni. „Þessar íbúðir koma til með að stytta biðlistann okkar,“ segir hún, en samningurinn gildir til ársins 2026, „en það eru vonir um að búið verði að ganga frá kaupum á öllum íbúðunum vel fyrir þann tíma.“