Bærinn sem aldrei breytist
Um þessar mundir er rúmlega áratugur liðinn frá því að ég átti síðast lögheimili á Akureyri, og bráðum sex ár síðan ég flutti af landi brott. Strákurinn sem gat sko ekki beðið eftir að komast í burtu að skoða heiminn á unglingsárunum er búinn að ferðast víða og skoðar nú fasteignaauglýsingar í Dagskránni og lætur sig dreyma um lítið fúnkishús á Brekkunni, með þvottasnúrum í garðinum og bílastæði með krana fyrir þvottakúst.
Ekki það okkur líður vel í Ameríku, þar sem við búum núna. Störf okkar hjóna eru þess eðlis að skynsamlegast er að búa erlendis, og ég veit svosem ekki hvað í ósköpunum ég ætti af mér að gera í funkishúsinu á Brekkunni - nema kannski að þvo bílinn. En, undanfarið hefur Akureyri skotið upp kollinum að næturlagi í draumum mínum, aftur og aftur.
Mig dreymir alltaf Akureyri þegar að ég er eitthvað óöruggur eða kvíðinn, og heimurinn er stundum kvíðvænlegur staður. Litli bærinn sem kúrir á milli fjalla við fjarðarbotninn, fjarri heimsins vígaslóð. Vaðlaheiðin, Kaldbakur og Súlur eru hlífisskjöldur og í þeirra skjóli eru ekki skógareldar, hnattræn hlýnun eða hryðjuverk. Akureyrin sem mig dreymir er auðvitað Akureyri æsku minnar. Það var Akureyri á fyrstu árum tíunda áratugarins - þegar syðsti punktur bæjarins var Verkmenntaskólinn, það var hægt að kaupa Blöndu og hafrakex í kjörbúðum KEA með grænum hundraðkalli, og hápunktur vikunnar var að fá djúpsteiktan kjúkling í bastkörfu á Crown Chicken, eða að fara með pabba á Bautann að sækja franskar og bernessósu.
Ég var svo heppinn að hafa tíma og tækifæri til að dvelja “heima” í tvær vikur í sumar með syni mínum og njóta Akureyrarinnar minnar. Ennþá veitir hún mér hugarró og öryggi - þó að Akureyri æsku minnar sé kannski ekki til lengur. Við höfum ekki Lindu, varla KEA og Amaro og alls ekki SÍS. Akureyringar keyra samt ennþá hægt og gefa ekki stefnuljós, bernessósan er ennþá best þar. Enn fyllast þvottaplön á góðviðrisdögum og metnaður íbúa til að búa til fallega, menningarlega útópíu á norðurhjara veraldar virðist enn sá sami.
Það er nefnilega alveg sama þó að KEA hverfi, gatnaskipulag breytist eða skúrunum á Eyrinni fækki. Akureyri er og verður alltaf Akureyri. Það gerir þessi einstaki andi íbúanna í bænum sem byggðist upp á hugsjónum, samvinnu, jöfnuði og smávegis af dansksprottnu menningarsnobbi. Eins og sonur minn orðaði það þegar hann var spurður að því hvort amma hans byggi á Íslandi; „Nei, hún býr á Akureyri.” Akureyri er nefnilega alveg einstakt fyrirbæri.
Á tímum tölvutækni er auðvelt að fylgjast með umræðunni og auðvitað hefur maður áhuga á öllu sem viðkemur sínum bæ. Það er skiljanlegt að takast á um skipulagsmál og bæjarpólitík - og öll eigum við kannski okkar útgáfu af Akureyri sem birtist í draumum þegar heimurinn virðist ógnvænlegur. Einhverjir vilja kannski mysingsgerð aftur í Gilið, aðrir þrá kannski ekkert heitar en að geta farið á strípibúllu í Sunnuhlíð. Sjálfur væri ég ótrúlega mikið til í að fá Kaffi Karólínu aftur og Heita Fimmtudaga í Deiglunni. En, það að búa 4000 kílómetra í burtu og koma heim einu sinni á ári hefur kennt mér að þó að hverfi rísi og falli og allt breytist - þá er Akureyri alltaf Akureyri. Nema þegar hún fyllist af regnþreyttum Reykvíkingum kannski.
Að lokum skora ég svo á kjarnakonuna Kötlu Aðalsteinsdóttur að rita næsta pistil.
Ingimar Davíðsson