Bændur á Möðruvöllum og Svertingsstöðum fengu verðlaun
Margrét Þóra Þórsdóttir
mth@vikubladid.is
Ábúendur á Möðruvöllum í Hörgárdal bræðurnir Þórður og Sigmundur Sigurjónssynir og eiginkonur þeirra Birgitta Lúðvíksdóttir og Helga Steingrímsdóttir hlutu sauðfjárræktarverðlaun Búnaðarsamband Eyjafjarðar fyrir árið 2021. Nautgriparæktarverðlaun BSE fyrir liðið ár komu í hlut hjónanna Hákonar B. Harðarsonar og Þorbjargar H. Konráðsdóttur á Svertingsstöðum 2 í Eyjafjarðarsveit. Verðlaunin voru veitt á aðalfundi sambandsins sem haldinn var í Hlíðarbæ.
Ábúendur á Möðruvöllum standa öll fjögur saman að búrekstrinum. Þau hafa öll frá æsku lifað og hrærst í búskap og störfum í kringum hann.
Frá upphafi hafa afurðir verið eins og best gerist og eru þau ávallt í hópi þeirra sem ná hvað bestum árangri.. Að meðaltali síðastliðin 8 ár hafa verið um 35 kíló eftir vetrarfóðraða á og fallþungi undanfarin ár milli 19 og 20 kíló.
Fimmta afurðahæsta búið
Hákon og Þorbjörg tóku við búskap á Svertingsstöðum 2 árið 2015 af foreldrum Hákonar. Hann er 4 ættliður sem er með búskap á Svertingsstöðum, en langafi hans og amma keyptu jörðina árið 1921.
Hákon B. Harðarson á Svertingsstöðum 2 í Eyjafjarðarsveit tekur við nautgriparæktarverðlaunum BSE fyrir árið 2021 úr hendi Birgis Arasonar formanns sambandsins.
Á Svertingsstöðum hefur alla tíð verið rekin blandaður búskapur þó mjólkurframleiðslan sé nú aðalbúgrein búsins Búið hefur verið virkt í ræktunarstarfi þar sem áherslan hefur verið lögð á að rækta afurðasamar og endingagóðar kýr sem henta til mjólkurframleiðslu við nútímaaðstæður.
Svertingsstaðir hafa síðustu ár oft verið í hópi afurðahæstu búa landsins, það var hið fimmta afurðahæsta hér á landi á liðnu ári með 61,7 árskú og 8.337 kíló á hverja árskú.