Bæjarráð Akureyrar vill að nýtt hjúkrunarheimili verði tekið í notkun á Akureyri eins fljótt og auðið er

Fyrirhugað er að nýtt hjúkrunarheimili verði reist á lóð við Þursaholt   Mynd  Vbl
Fyrirhugað er að nýtt hjúkrunarheimili verði reist á lóð við Þursaholt Mynd Vbl

Bæjarráð Akureyrar telur algjört forgangsmál að nýtt hjúkrunarheimili verði tekið í notkun á Akureyri eins fljótt og auðið er, enda sár þörf fyrir fleiri hjúkrunarheimili í sveitarfélaginu. Bæjarráð ræddi á dögunum um nýbyggingu hjúkrunarheimilis á Akureyri.

Lagt var fram samkomulag milli heilbrigðisráðuneytis og Akureyrarbæjar um breytt fyrirkomulag vegna byggingarhjúkrunarheimilis á Akureyri fyrir allt að 80 rými. Samkomulagið gerir ráð fyrir að nýtt hjúkrunarheimili verði reist á lóð við Þursaholt í stað Vestursíðu 13 eins og kveðið var á um í fyrra samkomulagi. Breytingin er í samræmi við áform bæjarins um uppbyggingu lífsgæðakjarna fyrir eldri borgara.

Samþykkti bæjarráð fyrirkomulagið með þeim fyrirvara að láta reyna á þann rétt Akureyrarbæjar að innheima gatnagerðar- og byggingargjöld sem og lóðarleigu af lóðinni hjá byggingaraðila.

Vilja að bærinn gefi gatnagerðargjöld eftir

Ríkið leggur nú til í fyrsta sinn að einkaaðili byggi og eigi hjúkrunarheimili. „Því miður er þó gerð krafa um að sveitarfélagið gefi eftir gatnagerðargjöld, þvert á það sem sagt er fyrir um í lögum,“ segir í bókun bæjarráðs.

Í ljósi stöðunnar telur bæjarráð ákaflega mikilvægt að  það samkomulag sem liggur fyrir verði undirritað, með fyrirvara er lítur að gatnagerðargjöldum. „Mikilvægt er að ólíkur skilningur ríkis og sveitarfélags er varða gatnagerðargjöld verði leyst, án þess að sá ágreiningur tefji uppbyggingu hjúkrunarheimilisins, enda væri það með öllu óboðlegt.“

Nýjast