Greitt fyrir ávexti og mjólk í grunnskólum Akureyrar

Ávextir og grænmeti ættu að vera að allra borðum       Mynd  doktor.is
Ávextir og grænmeti ættu að vera að allra borðum Mynd doktor.is

Bæjarráð Akureyri hefur samþykkt breytingar á gjaldskrám Akureyrarbæjar og taka þær gildi frá og með 1. september 2024. Samþykkt var að lækka gjaldskrár bæjarins í ljósi tilmæla ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því í vor um aðgerðir til að greiða fyrir kjarasamningum og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta.

Unnið hefur verið að útfærslu á gjaldskrárbreytingum síðustu mánuði, en bæjarstjórn hafði áður samþykkt að endurskoða þær hækkanir á gjaldskrá sem tóku gildi um síðastliðin áramót er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu ásamt því að tryggja gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir nemendur í grunnskólum sveitarfélagsins.

„Þrátt fyrir að skiptar skoðanir séu á því fyrirkomulagi sem lagt var til grundvallar aðkomu hins opinbera að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, þá er ljóst að niðurstaða um langtímasamninga hefur náðst og markmið þeirra um að stuðla að minnkun verðbólgu, lækkun vaxta sem og að auka kaupmátt heimila í landinu, eru mikilvæg,“ segir í bókun sem samþykkt var á fundi bæjarráðs.  

Einnig segir að Akureyrarbær muni miða að því að  hækkun á gjaldskrám verði ekki umfram 3,5% svo sem tilmæli eru um og er þá horft til barnafólks og fólks í viðkvæmri stöðu sem fyrr segir.

Áfram greitt fyrir ávexti og mjólk

Akureyrarbær skuldbindur sig til þess að tryggja gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir nemendur í grunnskólum sveitarfélagsins í samstarfi við ríkisvaldið og með fyrirliggjandi kostnaðarþátttöku þess, frá og með ágúst 2024 til loka samningstímans.

Greitt verður áfram fyrir ávaxta- og mjólkuráskrift í grunnskólum bæjarins, en gjaldskráin verður lækkuð frá því sem ákveðið var um áramót. Þeir sem kaupa ávexti í skólanum greiða nú 2.089 krónur á mánuði og mjólkuráskriftin er á 923 krónur á mánuði eftir lækkun á gjaldskrá sem tekur gildi um næstkomandi mánaðamót.

Ávaxtastund á 63 krónur á dag

Hjá Eyjafjarðarsveit er hádegisverður gjaldfrjáls en fyrir annað er greitt samkvæmt upplýsingum frá sveitarstjóra, Finni Ingva Kristinssyni. „Sveitarstjórn átti ekki við verðskrána að öðru leiti en að gera hádegisverðinn gjaldfrjálsan,“ segir hann. Verðskrá hjá sveitarfélaginu er vísitölubundin og hækkar til samræmis við það í upphafi hvers skólaárs.  Ávaxtastund í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit kostar 63 krónur á dag og síðdegishressing í frístund kostar 161 krónur á dag.

Ekki rukkað fyrir ávexti og mjólk

„Sveitarstjórn samþykkti fríar skólamáltíðir í Þelamerkurskóla sem þýðir að ekkert er innheimt fyrir hvorki hádegisverð, morgunverð, ávexti, mjólk né annað sem börnin fá á skólatíma,“ segir Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri í Hörgársveit. Innheimt er fyrir hressingu í frístund eftir skóla, en það er valkvæð þjónustu sem boðið er upp á og foreldrar greiða fyrir hana.

Þórunn Sif Harðardóttir sveitarstjóri í Svalbarðsstrandahreppi segir að aldrei hafi verið rukkkað fyrir hressingu í grunnskólanum. Sérstakt gjald hafi áður verið fyrir hressingu í leikskóla og í frístund grunnskólans en það var afnumið um síðastliðin áramót.

 

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast