Aukning í bókunum skemmtiferðaskipa til Norðurþings
Alls komu 50 skemmtiferðaskip til Húsavíkur á síðasta ári og bókunarstaða fyrir sumar komandi er enn betri hjá höfnum Norðurþings þrátt fyrir umræðu um aukna gjaldtöku. Aukningu í bókunum má m.a. þakka frábæru kynningarstarfi og samningi Hafnasjóðs við Húsavíkurstofu. Varnarsigur segir forstöðumaður Húsavíkurstofu.
Hefði viljað fleiri bókanir
Örlygur Hnefill Örlygsson, forstöðumaður segir ánægjulegt að það stefni í fjölgun skipa í sumar en hefði viljað sjá enn fleiri bókanir í þessu árferði. Ákvörðun stjórnvalda um að taka upp innviðagjald á farþega skemmtiferðaskipa sem tók gildi um áramót hafi ekki hjálpað til og eflaust hafi umræðan sem átti sér stað um afnám tollfrelsis haft neikvæð áhrif en því var að lokum frestað um eitt ár og tekur að óbreyttu gildi um næstu áramót.
„Afbókanir eru alltaf reglulegar og koma alltaf í eðlilegu ári líka en það er annað þegar búið er að bóka með löngum fyrirvara og síðan afbókað, þá geta skýringarnar verið þessar álögur stjórnvalda,“ segir Örlygur aðspurður hvort aðgerðir stjórnvalda hafi haft neikvæð áhrif.
Raufarhöfn kemur sterk inn
Þá segir Örlygur að í dag séu 60 skip bókuð til hafna Norðurþings sem sé fjölgun um 10 frá síðasta ári. „Þannig að við erum á uppleið, sem er mjög jákvætt, á meðan aðrar hafnir eru að fara niður á við í bókunum. Annað sem ég sé jákvætt í þessum tölum er að fimm af þessum bókunum eru á Raufarhöfn en við höfum einmitt verið að beita okkur fyrir því að skipin færu meira þangað,“ útskýrir hann en bætir við að erfitt sé að meta nákvæmlega hvort afbókanir séu vegna ákvarðana stjórnvalda og umræðu þeim tengdum eða hvort aðrar ástæður liggi að baki.
Ákvarðanir stjórnvalda hjálpi ekki til
„Það má kannski segja að það sé hægt að rekja fjórar afbókanir hjá okkur til þessarar stöðu með innviðagjöldin og afnám tollfrelsin. Maður sá að það datt aðeins niður hjá okkur í bókunum í haust þegar umræðan var hvað heitust um afnám tollfrelsis á skemmtiferðaskip. Við erum að bæta við okkur þrátt fyrir þetta enda höfum við verið í átaki en við hefðum viljað vera með svona tíu fleiri bókanir,“ segir Örlygur.
Telur kynningarátak hafa heppnast vel
Aðspurður hvort kynningarátak Hafnarsjóðs í samvinnu við Húsavíkurstofu sé að þakka góðri bókunarstöðu segir hann að það liggi svo sem ekki fyrir neinar mælingar á því en ástæða sé að ætla að gott kynningarstarf skili sér. „Við gerðum t.d. mjög gott mót á stórri skiparáðstefnu í Osló í október. Svona kynningarherferð hlýtur að skila töluverðu og ekki síður vinnan sem verið er að skila hjá starfsfólki hafna Norðurþings, þeir eru að standa sig gríðarlega vel. Ég veit ekki hvort maður geti kallað þetta varnarsigur af því að við erum að bæta við okkur en við hefðum viljað ná lengra. Vinna stærri sigur,“ segir Örlygur að lokum.