Átaksverkefni um tiltekt á iðnaðar- og athafnalóðum
Átaksverkefni um tiltekt á iðnaðar- og athafnalóðum sem og tiltekt á munum í bæjarlandinu í kringum athafnasvæðin verður hleypt af stokkunum á vordögum. Skipulagssvið Akureyrarbæjar og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra standa að átakinu.
Markmið verkefnisins er að bæta ásýnd bæjarins, vekja athygli á því að lóðarhöfum beri að virða lóðarmörk, koma reglu á notkun gáma og hvetja til umsóknar á stöðuleyfum fyrir lausafjármuni s.s. gáma.
Töluvert hefur verið um að iðnaðar- og athafnalóðir séu ósnyrtilegar og notaðar sem geymsla fyrir úrgang eða muni sem eru ekki hluti af starfseminni eða þjóna henni ekki lengur. Munir eru oft komnir út fyrir lóðarmörk og ótal dæmi eru um að munir séu geymdir í bæjarlandinu. Einnig er mikið af gámum á slíkum lóðum sem og í bæjarlandinu sem ekki eru með stöðuleyfi.
Verkefnið mun hefjast á almennu hvatningarbréfi til lóðarhafa iðnaðar- og athafnalóða og því svo fylgt eftir, en m.a. er ætlunin að taka myndir með dróna yfir svæðin. Verði ekki brugðist við þar sem það á við eru uppi áform um að beita dagsektum þar til eigendur lóðanna hafa lokið tiltekt.