Lög Gunnars Þórðarsonar hljóma í Hofi n.k. laugardagskvöld

Hópurinn sem stendur að tónleikunum
Hópurinn sem stendur að tónleikunum

„Við hlökkum gríðarlega mikið til að koma norður, það er alltaf gott að vera Akureyri sem er yndislegur bær,“ segir Hulda Jónasdóttir viðburðarstjóri en um þar næstu helgi, laugardaginn 22. mars kl. 20.20 verða tónleikar í Menningarhúsinu Hofi sem tileinkaðir eru Gunnari Þórðarsyni. Yfirskrift þeirra er Himinn og jörð.

„Þetta ferðalag okkar hófst fyrir ári síðan og hefur gengið alveg ótrúlega vel,“ segir hún. Tvennir tónleikar hafa verið haldnir í Salnum í Kópavogi, fyrir fullu húsi í bæði skiptin. Hún segir hópinn sem stendur að tónleikunum vera í góðu sambandi við hjónin Gunnar Þórðarson og Toby Herman og svo hafi verið í gengum allt ferlið. „Þau hafa heiðrað okkur með nærveru sinni á tónleikum og eru afar hlý og elskuleg,“ segir hún.

Fjölbreytt lagaval

Hulda segir hópinn hafa komið nokkrum sinnum í Hof og þar sé frábært að halda tónleika. „Við heiðruðum m.a. Helenu Eyjólfs fyrir nokkrum árum og það skapaðist einstök stemning enda Helena yndisleg kona,“ segir Hulda.

Hún segir að erfitt hafi verið að velja lög á tónleikana, valið standi á milli fjölmargra fallegra laga. „En við reyndum að hafa þetta fjölbreytt og því munu hljóma lög vítt og breytt af ferli Gunna, Hljómar -Trúbrot- Sóló- Þú og Ég og lög af Vísnaplötunum svo eitthvað sé nefnt. Sérstakir gestir eru Stúlknakór Glerárkirkju undir stjórn Margrétar Árnadóttur sem tekur þátt í flutningi laga af Vísnaplötunni.

Samdi yfir 800 lög

Gunnar Þórðarson er einn ástsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar fyrr og síðar. Hann hefur samið yfir 800 lög og hefur auk þess samið tónlist fyrir kvikmyndir og söngleiki.
Einnig hefur hann útsett og stjórnað upptökum á fjölda hljómdiska. Á síðustu árum hefur Gunnar í vaxandi mæli fengist við klassíska tónlist og hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands flutt nokkur verka hans. „Á þessum tónleikum munum við flytja nokkrar fallegar dægurlagaperlur Gunnars, lög á borð við: Fyrsti kossinn, Bláu augun þín, Gull, Vetrarsól og mörg, mörg fleiri,“ segir Hulda.

Nýjast