Endurbætur og viðhald á göngugötunni á Akureyri

Endurbætur og viðhald á göngugötunni í Hafnarstræti á Akureyri hafa verið til umræðu undanfarið eftir að skýrsla um að verulega slæmt ástand götunnar, að Ráðhústorgi meðtöldu var birt nýverið.
Á fundi umhverfis- og mannvirkjaráðs var lögð fram og kynnt hönnun á Hafnarstræti, Ráðhústorgi og næsta umhverfi sem unnið var að á árunum 2017 til 2018. Teiknistofa Norðurlands sá um þá hönnun og segir Arnar Birgir Ólafsson eigandi stofunnar og landslagsarkitekt að fyrsti áfangi tillögunnar hafi farið í framkvæmd sumarið 2017. Þá voru sett upp ný trjábeð, grjóthleðslur, bekkir og ruslabeður, ljós og hjólastandar í Hafnarstræti. Síðan hefur orðið hlé á framkvæmdum.
Verið að skoða og meta næstu skref
Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar segir að verið sé að skoða næstu skref varðandi endurbætur á þessu svæði. Það þurfi sem dæmi að skoða með umferð um þetta svæði til framtíðar, það skipti máli varðandi allar hönnunarforsendur við verkefnið. Það geri sér allir grein fyrir að ástandið sé slæmt og að grípa þurfi til aðgerða, en nú sé verið að skoða og meta málið. „Þetta er andlit bæjarins og því skiptir máli að umhverfið sé skemmtilegt og aðlaðandi og að fólk vilji dvelja í miðbænum og eiga þar góðar stundir. Verkefnið er spennandi og við munum fara vel yfir það á næstu vikum,“ segir Guðríður.