Áskorandapenninn: Guðfræði og Marvel-veröldin

Gunnar Már Gunnarsson.
Gunnar Már Gunnarsson.

Bókartitillinn á náttborðinu segir því miður ekki mikið til um ástand trúarlífsins á heimilinum. Kirkjuræknin líkast til undir meðallagi, andlega hliðin ekki alltaf blómleg og faðirvorið vafðist heldur betur fyrir heimilisföðurnum þegar kom að því að lesa yfir fermingarbarninu. Æðruleysisbænin sem betur fer enn til staðar í annars gloppóttu minni, nokkurn vegin heildstæð, í öllum megindráttum í það minnsta.

Og ekki er heimilisfaðirinn heldur slíkur Marvel-unnandi, að ekki sé um annað rætt og hugsað. Það er hins vegar erfitt að hundsa gríðarmiklar vinsældirnar til lengdar. „Marvel hefur ráðið ríkjum á 21. öldinni með sögum sínum en allar góðar sögur eiga það eitt sameiginlegt að þeim lýkur einhvern tímann,“ skrifaði blaðamaður Hollywood Reporter eitthvert sinnið og spurði í sömu andrá hvort Marvel og Disney ætti eftir að átta sig á því í tæka tíð hvenær sé komið nóg. Hver veit, ekki undirritaður í það minnsta. Við fyrstu stiklu er hann sjálfur staddur í þvögunni við enda Marvel-færibandsins, líkt og nánast hvert einasta mannsbarn – síðustu ár og eflaust ókomin ár framundan. Eins og frægt er vildi leikstjórinn aldni, Martin Scorsese, helst ekki skilgreina myndaflokkinn sem kvikmyndalist. Myndirnar væru skemmtigarður, ekkert annað né meira. Auðvitað er þetta sjónarspil.

Gagnrýnisraddir sem hans hafa þó áður viljað gera vinsælt afþreyingarefni brottrækt úr menningarumræðunni, og ekki alltaf haft erindi sem erfiði. Því þótt sögur séu vinsælar er ekki þar með sagt að ekki megi finna í þeim merkingu eða gildi. Myndasögur og afsprengi þeirra eru í eðli sínu ævintýri; við erum komin á slóðir dreka, galdra, spádóma og forlaga. Þar sem hágöfugar hetjur takast á við ískyggileg varmenni. Og eflaust er mikið til í því að við leitum á náðir afþreyingarinnar þegar við viljum losna undan amstri hversdagsins. Fantasíur segja enda frá öðrum heimi, ekki okkar, ekki hinum raunverulega heimi. Fantasían er samt ekki eingöngu flótti, því þótt ævintýrið sé dægrastytting þá liggur eiginlegt gildi þess ekki í því að draga athygli okkar frá veruleikanum. Gott ævintýri, miklu frekar, beinir athygli okkar að hinum ytri heimi. Við veltum honum á ýmsar hliðar í gegnum litskrúðugt sjóngler fantasíunnar og stundum sjáum við eitt og annað sem við kannski þekkjum eða könnumst við. Sjáum það ef til vill ekki skýrar en í það minnsta á nógu framandi hátt til að staldra við.

Svo hvað getur Marvel sagt okkur um guðfræði og manninn – eða guðfræðin okkur um hið mennska í Marvel, eftir því hvernig á það er horft? Eitt og annað, eins og kemur í ljós við lestur á Theology and the Marvel Universe. Höfundarnir fjórtán eiga það allir sammerkt að víla það ekki fyrir sér að ráðast inn í skógarþykknið í leit að sjónglerinu, í leit að einhvers konar andlegri þekkingu í sínum eigin heimi. Sjálfur staldraði ég við kafla ritstjórans um þann andlega kraft sem getur verið fólginn í mannlegum breyskleika, eða veikleika, öllu heldur – eins og hann birtist okkur í persónu Peter Parker og köngulóarmannsins (a.k.a. Spider-man, fyrir þá sem eru fæddir á þessari öld en ekki þeirri síðustu). Þar er einhver lærdómur, er það ekki? Því þótt enn tróni þeir sterku, að því er virðist, oftast nær efst, þeir sem aldrei vilja sýna á sér veikleikamerki, aldrei geta beðist afsökunar á neinum gerðum – þá erum við held ég flest að verða óbærilega og áþreifanlega þreytt á þeim. Við viljum ekki að þeir geri út um vinaþel þjóða, eða leiki heilu íþróttahreyfingarnar grátt með ofdrambi og hroka. Við þekkjum ekki þessa einstaklinga, ekki í okkar eigin lífi, ekki í pabba sem setur í þvott og er stundum uppgefinn, eða mömmu sem nennir eiginlega helst ekki á foreldrafund. Og þekkjum þá heldur ekki í uppáhalds hetjunum okkar.

Og fyrst við erum á slóðum Draumaverksmiðjunnar þá held ég að ég skori á hann Ingimar Davíðsson að skrifa okkur frá Bandaríkjunum. Pabba sem örugglega setur í þvott, og örugglega er stundum uppgefinn.

-Gunnar Már Gunnarsson. 

Nýjast