Anna María keppir um brons í Slóvakíu: Beint streymi

Bogfimikonan Anna María Alfreðsdóttir  mun keppa í brons úrslitaleik Veronicas Cup í Slóvakíu kl 13:30 að staðartíma í dag eða 11:30 á Íslandi. Hægt er að fylgjast með beinu steymi af viðureigninni hér neðst í fréttinni.

Anna María er  búin að eiga frábært mót. Hún sló Íslandsmetið í trissuboga kvenna opnum flokki fullorðinna og U21, og sló landsliðsmet með trissuboga kvenna liðinu í opnum flokki og U21. Anna var í fjórða sæti í undankeppni einstaklinga, tók gullið með trissuboga kvenna liðinu og var í 6 sæti í blandaðri liðakeppni.

Útsláttarkeppni einstaklinga var í gær.  Anna sat hjá þar til í 16 manna úrslitum, þar hafði hún betur gegn Barbora Galova frá Slóvakíu með nýju U21 Íslandsmeti 142-137. Í 8 manna úrslitum gegn Alexandra Silva sigraði Anna 142-138. Í 4 manna úrslitum keppti Anna á móti Toja Ellison um hver færi í gull keppnina en þar hafði Toja betur 148-140. Vert er að geta að Toja Ellison er nýbúin að slá Evrópumet í blandaðri liðakeppni á mótinu.

Anna mun mæta Stefania Merlin frá Lúxembourg í brons úrslitum mótsins sem fylgjast má með hér að neðan. Það er bogfimivefurinn Archery.is sem greinir frá.

Uppfært: Anna María sigraði í bronsúrslitum. 142-130 og vinnur þar með til bronsverðlauna.

 

Nýjast