Ánægjulegar fréttir
Þau tíðindi bárust fyrir nokkru að á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga og Byggðastofnunar þar, sem leitað var álits um 10 þús. manna og spurt um 40 atriði hvað varðar t.d. friðsæld, loftgæði, skólamál, atvinnuöryggi, launatekjur, húsnæðismál, nettengingu, vegakerfi, vöruverð, þjónustu við aldraða og fatlaða, rafmagn, ásýnd bæja og sveita og almenningssamgöngur.
Það, sem uppúr stóð var að íbúar Vestmannaeyja, Akureyrar og Eyjafjarðar mældust með hæsta heildarstigagjöf í könnunni en þó eru bæjarfélögin misánægð með hina ýmsu þætti. Akureyringar virðast vera jákvæðastir gagnvart t.d. skólamálum, menningar og umhverfismálum enda skorar skólabærinn hátt. Eftir því er tekið að ekkert er minnst á skipulagsmál hér á Akureyri í könnun þessari, sem vissulega eru umdeild og mættu í sumum tilfellum betur fara og ber þar trúlega hæst hin umdeilda háhýsabyggð, sem rætt er um á Oddeyrinni og sagt er að setji aðflug að Akureyrarflugvelli í hættu ef af verður.
Þá má einnig til taka um bygggingamagn á einstaka einkalóðum, sem er með öllu óskiljanlegt og ekki alltaf í takt. Einnig er furðulegt að ekki skuli vera teknar í burtu upphækkanir þær, sem eru beggja vegna Hafarstrætis (göngugötu) við Krónuna annars vegar og hótels Akureyri, sem var hins vegar en þarna komast hvorki barnavagnar né kerrur ásamt líkamlega fötluðu fólki án þess að fara út á akbrautina. Það er svo allt önnur saga, sem ég læt fljóta hér með að í tíð Bjarka Jóhannessonar, sem þá var skipulagsstjóri, sagði hann mér persónulega að þetta yrði lagað sem allra fyrst.
Grindvíkingar eru skv. könnunni jákvæðastir allra gagnvart sínu sveitarfélagi á heildina litið en Vestmannaeyingar og íbúar í Snæfellsbæ reyndust hamingjusamastir allra. Að lokum vil ég geta þess að ég hef oftar en einu sinni í skrifum mínum fjallað um ýmsa hluti en eingöngu bent á það sem betur mætti fara og vil ég segja við bæjarstjórn að þó þetta séu um margt jákvæðar fréttir fyrir bæinn okkar að þá má betur fara ef duga skal og slysin gera ekki boð á undan sér enda tryggir enginn eftirá. Sér kapítuli er svo óskiljanleg vinnubrögð og peningaaustur við Listasafnið sem betur hefði mátt fara.
-Hjörleifur Hallgríms fæddur og uppalinn Akureyringur