„Án sjálfboðaliða hefði þetta ekki verið hægt“

Nýji golfskálinn séð frá Katlavelli.
Nýji golfskálinn séð frá Katlavelli.

Blaðamaður Vikublaðsins heimsótti á sunnudag sjálfboðaliða frá Golfklúbbi Húsavíkur sem voru saman komin í nýju húsi klúbbsins sem fyrirhugað er að verði opnað með pompi og prakt í vor. Meðlimir klúbbsins hafa unnið hörðum höndum allar helgar á nýju ári en Trésmiðjan Rein sá um að reisa húsið og loka því. Þeirri vinnu var lokið fyrir áramót.

Birna

Það var mikið um að vera í húsinu þegar blaðamaður leit við, og unnið hörðum höndum við smíðavinnu, spörtlun og pípulagnir svo eitthvað sé nefnt. Og þá var ekki verra að hafa innan klúbbsins, smiði, rafvirkja  og málara meðal annarra.

Á laugardag fylgdust sömu sjálboðaliðar með út um glugga nýja hússins þegar gamli golfskálinn brann í tengslum við æfingu slökkviliðsins.

Viðstaddir sögðu að vissulega væru tilfinningar tengdar þessu gamla húsi en það hafi verið úr sér gengið og ekki forsvaranlegt að nýta það áfram.

Uppbygging á traustum grunni

Meggi og Hulda

Golfklúbbur Húsavíkur var stofnaður árið 1967 og er því einn af elstu golfklúbbum landsins.

Á fyrstu árum GH hófust félagsmenn handa við að koma sér upp aðstöðu við Þorvaldsstaði og uppbygging Katlavallar hófst í kjölfarið.

Sumarið 1971 var formlega tekinn í notkun 9 holu völlur en sænskur golfvallaarkitekt, Skjöld að nafni, gerði frumdrátt að skipulagi vallarins og var stuðst við teikningar hans í framhaldinu. Sumarið 1975 var farið að leika Katlavöll samkvæmt núverandi skipulagi. Nýtt klúbbhús var reist árið 1977 og er útsýnið úr golfskálanum gríðarlega gott.

Sérstaða Katlavallar er mikið landslag en hann er hæðóttur og nokkuð þungur á fótinn. Mikið er um berjalyng utan brauta en lúpínan hefur tekið þar völdin á undanförnum árum.

Þorvaldsstaðaá rennur í gegnum völlinn og kemur við sögu á alls sex brautum vallarins. Gróður setur mikinn svip á Katlavöll og hafa félagsmenn lagt mikla vinnu í að gera völlinn enn fallegri og skemmtilegri.

Mikil uppbygging undanfarin ár

Gulli

Undanfarin ár hefur átt sér stað gríðarleg uppbygging á starfi GH og má segja að klúbburinn hafi komið með krafti inn í nútímann. Meðlimir eru í dag um 120 talsins og á ári hverju fara fram fjöldi móta á vegum klúbbsins, barna og unglingastarf hefur einnig færst mjög í aukana. Tilkoma nýja hússins mun hafa byltingu í för með sér í starfi klúbbsins

 Unnið af kappi

Birna Ásgeirsdóttir, formaður GH var að sjálfsögðu ein af sjálfboðaliðunum, klædd í vinnugalla og með sigg á höndum. Hún segir að allt kapp sé lagt á það að klára húsið áður en golfvertíðin hefjist. „Það er kappsmál að koma þessu upp á sem hagkvæmastan hátt. Við fengum styrk frá sveitarfélaginu en þurfum svo að klára restina í sjálfboðavinu,“ segir Birna og bætir við að með tilkomu hússins verði algjör bylting í starfi klúbbsins en húsið er 300 fermetrar samanborið við gamla skálann sem var 80 fermetrar.

Blaðamaður ræðir við Birnu í stærsta rými hússins sem hún segir verða æfingaaðstaða en þar er búið að gipsa og spartlvinna langt komin.

„Nú ertu staddur inni í æfingasalnum. Hér verður púttaðstaða og svo verður í hluta salarins golfhermir og möguleiki á að æfa sveiflur í net.  Svo vonandi verður keyptur nýr golfhermir í framtíðinni. Við stefnum að því,“ útskýrir Birna.

Svo verður veitingaaðstaða í húsinu, afgreiðsla og skrifstofa. Þá bendir Binra á minni rými og segir að þar verði geymslur þar sem hægt verður að geyma golfsett og annað fyrir æfingaaðstöðuna.  „Þetta hús gefur okkur bara möguleika á að stunda íþróttina okkar allt árið,“ segir hún og bætir við að það sé afar vermætt fyrir barna og unglingastarfið að það sé hægt að halda krökkunum við golfíþróttina með því að bjóða upp á æfingar allt árið.

Aukning í barna og unglingastarfi

Einar rafvirki

Barna og unglingastarf í Golfklúbbi Húsavíkur hefur enda verið mjög vaxandi undanfarin ár og iðkenndum af yngri kynslóðinni stöðugt að fjölga.

„Við höfum verið með á leigu aðstöðu í gamla Mjólkursamlaginu, en nú getum við loks verið með alla starfsemina í okkar eigin húsnæði,“ segir Birna og hlakkar greinilega mikið til vorsins.

„Við erum búin að vera í samstarfi við Golfklúbb Akureyrar varðandi námskeiðahald og æfingar. Það hafa verið svona um 30-35 krakka undanfarin ár á námskeiðum og æfingum. Það skiptir einfaldlega öllu fyrir þessa krakka að geta æft allt árið.“

 Íþrótt fyrir alla

Birna og

Aðspurð segir Birna að gamla ímyndin um að golfíþróttin væri bara fyrir gamla ríka kalla væri löngu liðin. Það væru allir velkomnir, á öllum aldri í Golfklúbb Húsavíkur og hentar ákaflega vel sem fjölskyldusport.

Svo segir Birna að Golfvöllurinn sé að verða mjög vinsæll ferðamannastaður en fjöldi fólks leggur leið sína til Húsavíkur á sumrin til að spila golf á Katlavelli enda sé hann með bestu og fallegustu 9 holu völlum landsins.

Endurröðun á vellinum

Gummi málari...

Nýja klúbbhúsið hefur risið á öðrum stað en gamla húsið eða norðaustan við völlinn. Það liggur því beinast við að snúa þurfi vellinum fyrir vorið svo hægt sé að byrja hringinn sem næst húsinu. „Já, við þurfum að snúa vellinum og það þarf klúbburinn að koma sér saman um, hvaða braut sé best til þess fallin að verða fyrsta braut. Við ætlum að verða tilbúin með þetta í vor um leið og greenið er tilbúið,“ segir Birna og bætir við að ýmsar tillögur hafi nú þegar komið fram.

Birna segir að lokum að stefnt sé að formlegri opnun hússins í maí og verði gestum boðið að koma og skoða aðstöðuna. „Svo vil ég bara ítreka þakklæti mitt til allra klúbbfélaga sem lagt hafa hönd á plóg. Án þeirra hefði þetta ekki verið hægt,“ Segir Birna Ásgeirsdóttir.

 

 

Nýjast