27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Allt að 70 íbúðir í nýbyggingum
mth@vikubladid.is
Skipulagsráð hefur tekið jákvætt í hugmyndir um uppbyggingu á reit í norðurhluta miðbæjar Akureyrar. Björn Ómar Sigurðsson hjá BB Byggingum ehf. og Haraldur S. Árnason hjá H.S.Á. teiknistofu kynntu hugmyndir að uppbyggingu á fundi ráðsins nýverið. Um er að ræða svæði sem nær til Geislagötu 7, Gránufélagsgötu 4 og Hólabrautar 12 auk bílastæðis austan Brekkugötu 4-12.
Óskað var eftir því við skipulagsráð að heimilað verði að byggja allt að 6 hæða hús á lóðum með inndreginni efstu hæð. Á fyrstu hæð húsanna verði verslanir og þjónusta sem tilheyra miðbæjarstarfsemi en á efri hæðum gætu verið allt að 70 íbúðir. Fram kemur í kynningu að verði jákvætt tekið í hugmyndirnar sé óskað eftir að hækka húsin við Glerárgötu 7 og Geislagötu 5 þannig að þau verði 6 hæðir.
Fyrirtækið BB Byggingar hefur keypt Hólabraut 12 og Gránufélagsgötu 4 og með sérstöku samkomulagi við eigendur JMJ verða þessar húseignir fjarlæðar. Því fylgir gríðarlegur kostnaður en talið nauðsynlegt til að nýbyggingar njóti sín að fullu ótengt eldri byggingum.
Bílastæðahús vestan við húsin
Þá óska BB Byggingar eftir því að byggja bílastæðahús vestan við umrædd hús. Núverandi bílastæði myndu að mestu halda sér en til viðbótar kæmu um 80 bílastæði sem tilheyra myndum húsunum við Hólabraut og Gránufélagsgötu.
Fram kemur í kynningu félagsins að þessi uppbygging myndi stórbæta ásýnd miðbæjarins á Akureyri. Einnig að ef farið verði af stað með uppbygginguna yrðu bæði húsin byggð samtímis og verktími styttur sem mögulegt er. Þá er tekið fram til fróðleiks að gatnagerðargjöld af þessari framkvæmd verði um 200 milljónir króna.