27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
„Algjör synd að það sé ekki hægt að bjóða upp á eitthvað svona“
Stjórn Hafnasjóðs Norðurþings fjallaði fyrir skemmstu um erindi frá Helgu Björgu Sigurðardóttur en hún óskaði eftir afnotum af Húsavíkurvita fyrir starfsemi sína.
Helga Björg hefur starfað sem nuddari frá árinu 2007 og horfir til þess að bjóða upp á lúxusmeðferð í Húsavíkurvita sem stendur tignarlegur við Sjóböðin á Húsavík.
Stjórn Hafnasjóðs Norðurþings tók jákvætt í erindið og fól Hafnastjóra að útbúa leigusamning um afnot af neðstu hæð Húsavíkurvita undir umrædda starfsemi.
Bókun Hafnarsjóðs vakti forvitni blaðamanns sem sló á þráðinn til Helgu Bjargar sem sagði honum allt um fyrirætlanir sínar.
Synd ef ekkert er nuddið
Helga Björg starfaði við nudd á Hótel Deplum við Ólafsfjörð fyrir nokkrum misserum síðan en kom heim til Húsavíkur til að nudda í Sjóböðunum. „Ég var í Sjóböðunum í einhverja tvo mánuði en svo hætti ég því,“ segir Helga Björg og bætir við að aðstaðan hafi verið heldur þröng. „Mér finnst algjör synd að það sé ekki hægt að bjóða upp á eitthvað svona.“
Helga Björg segist ekki í vafa um að það sé markaður fyrir hefðbundið nudd í eða við Sjóböðin og hún hafi hugsað sér að gera enn betur. „Ég hef hugsað mér að vera með einhvers konar lúxusmeðferð, ef ég kem til með að gera þetta þá mun ég bjóða upp á eitthvað meira en hefðbundið nudd, kannski flot í byrjun, nudd og gong-slökun,“ segir hún og bætir við að hún sé búin að fara í vettvangsskoðun í vitanum.
Hrátt og sjarmerandi
„Ég er búin að skoða mig um og þetta lítur alveg þokkalega út. Vitinn er náttúrlega kaldur og það er svolítið bergmál í honum. Ég er ekkert 100% viss um að það sé mögulegt að bjóða upp á þessa þjónustu í vitanum en ég ætla að skoða hvort það sé ekki hægt að gera eitthvað úr þessu,“ segir Helga Björg og bætir við í góðu gamni að bergmálið myndi eflaust gagnast ágætlega fyrir gongið, það þyrfti bara að slá einu sinni á það og vitinn myndi óma það sem eftir væri meðferðarinnar. „Það magnast eflaust vel upp í bergmálinu,“ segir hún og hlær.
Að öllu gamni slepptu segist Helga vera búin að horfa til vitans allt frá því hún hætti að nudda í Sjóböðunum. „Ég hélt að hann væri fullur af drasli en það reyndist ekki vera. Það er allt voða hrátt þarna inni en það er bara sjarmi yfir því.“
Menntar nuddara framtíðarinnar
Helga Björg (fremst til hægri) ásamt fyrsta nuddhópnum úr FSH á góðri stund í lok einnar námslotunnar. Mynd/aðsend.
Helga Björg hefur í nógu að snúast er viðkemur nuddi en haustið 2019 tók hún við kennslu í heilsunuddi við Framhaldskólann á Húsavík. Óhætt er að segja að námsbrautin hafi slegið í gegn en mikil aðsókn er í námið.
Helga Björg segir að í fyrsta hópnum hafi verið 12 konur sem útskrifuðust vorið 2021. Haustið sama ár skráðu 20 nemendur sig til náms í heilsunuddi við FSH. 16 konur og fjórir karlar á öllum aldri og komust færri að en vildu. Hún segir að hópurinn komi alls staðar að af landinu m.a. tvær konur alla leið frá Höfn í Hornafirði. Aðeins sé einn Húsvíkingur í þessu fyrstu tveimur árgöngum.
„Þetta skiptist niður í bóklegt nám og svo tekur verklegi þátturinn við í 2,5 ár. Svo þurfa nemendurnir að nudda og safna 450 tímum áður en þær ná að útskrifast. Bóklegu fögin eru kennd í fjarnámi og verklegi hlutinn er kenndur í staðarlotum sem er föstudagur til sunnudags. Önnur hver helgi. Þetta er svona sex helgar hvor önn,“ útskýrir Helga og bætir við að fyrir vikið henti námið fólki sem vill vinna meðfram.
„Við reiknum með að taka næsta hóp inn næsta haust. Þetta er stór hópur sem er núna þannig að það er greinilegt að námið er vinsælt,“ segir Helga Björg að lokum.