Akureyri - Opnun jólatorgsins og ljósin tendruð á jólatrénu

Jólatorgið verður opnað með  viðhöfn n.k sunnudag
Jólatorgið verður opnað með viðhöfn n.k sunnudag
Hátíðleg stund verður á Ráðhústorginu á sunnudaginn, fyrsta sunnudag í aðventu, þegar ljósin verða tendruð á jólatré bæjarbúa og splunkunýtt jólatorg verður opnað.
 
Milli kl. 15-17 verður til sölu ýmis varningur í skreyttum jólahúsum sem yfirleitt tengist hátíðarhöldunum með einum eða öðrum hætti. Skátafélagið Klakkur verður á staðnum með eldstæði þar sem hægt verður að grilla sykurpúða yfir.
 
Dagskráin hefst á sunnudaginn kl. 15.15 þegar að söngkonan Jónína Björt stígur á svið og flytur jólalög. Þar næst fáum við nokkur lög úr jólasýningunni Jóla Lólu á vegum Leikfélags Akureyrar. Þar á eftir mun Lúðrasveit Akureyrar, undir stjórn Sóleyjar Bjarkar Einarsdóttur, leika nokkur létt jólalög en síðan er búist við að hinir óútreiknanlegu jólasveinar taki yfir dagskrána með þónokkrum látum og hurðaskellum.
 
Líklegt er að þeir hleypi Erik Vilstrup Lorenzen, sendiherra Danmerkur, og Geir Kristni Aðalsteinssyni, ræðismanni Danmerkur á Norðurlandi, að til að bera bæjarbúum kveðju frá Randers og þá flytur Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, stutta jólahugvekju.
 
Embla Þórhildur, 10 ára, og Benjamín Loki, 8 ára, tendra svo ljósin á jólatrénu og loks syngur Barna- og unglingakór Glerárkirkju, undir stjórn Margrétar Árnadóttur, áður en jólasveinarnir tralla klassísk jólalög með gestum á Ráðhústorgi. Að því búnu stíga þeir niður af sviðinu og bjóða gestum og gangandi að þiggja hollt jólagóðgæti úr pokum sínum.
 
Jólatorgið verður svo opið næstu tvær helgar á eftir með skipulagðri dagskrá við allra hæfi. Nánari upplýsingar um jólatorgið á Akureyri má finna á www.jolatorg.is
 
Hér eru upplýsingar um lokanir vegna Jólatorgs.
 
Heimild, akureyri.is
 

Nýjast