Akureyrarbær: Jákvæð niðurstaða um tæplega 1,5 milljarð króna

Fram undan er mikil uppbygging í vaxandi sveitarfélagi segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri. Myn…
Fram undan er mikil uppbygging í vaxandi sveitarfélagi segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri. Mynd Akureyrarbær/María Helena Tryggvadóttir.

Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árin 2025-2028 var samþykkt í bæjarstjórn Akureyrar þriðjudaginn 3. desember. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar árið 2025 er áætluð jákvæð um tæplega 1,5 milljarð króna. Gert er ráð fyrir stighækkandi rekstrarafgangi á árunum 2026-2028 og að niðurstaðan árið 2028 verði tæplega 2,1 milljarður. Eignir eru áætlaðar samtals 73,7 milljarðar króna í árslok.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir að áætlunin endurspegli með skýrum hætti mikinn metnað Akureyrarbæjar til að standa eins vel og kostur er að lögbundnum hlutverkum sveitarfélagsins. „Það er fyrst og fremst hlutverk okkar að veita bæjarbúum fyrirtaks þjónustu, til að mynda í leik- og grunnskólum, félagsþjónustu, íþrótta- og æskulýðsmálum og skipulagsmálum, svo eitthvað sé nefnt. Fram undan er mikil uppbygging í vaxandi sveitarfélagi og við erum stolt af þeirri góðu vinnu sem lögð hefur verið í gerð fjárhagsáætlunar til næstu ára. Fjárhagurinn er traustur og við horfum björtum augum til framtíðar.“

Metnaðarfull framkvæmdaáætlun

Framkvæmdaáætlun næstu ára er afar metnaðarfull og af helstu fyrirhuguðum framkvæmdum ársins 2025 má nefna nýjan leikskóla í Hagahverfi, áframhaldandi uppbyggingu á KA-velli, nýjan gervigrasvöll á Þórs-svæði og endurbætur á Sundlaug Akureyrar. Gatnaframkvæmdir eru einnig umtalsverðar og má þar nefna uppbyggingu gatna í Móahverfi, endurbyggingu eldri gatna, meðal annars með umferðaröryggismál í huga, og frekari uppbyggingu á stígakerfi í bæjarlandinu. Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar hjá Norðurorku á næstu fjórum árum og mest áhersla er lögð á að efla hitaveitukerfið svo tryggja megi öllum nægt heitt vatn til frambúðar. Loks má nefna að Hafnarsamlag Norðurlands stefnir að því að ljúka umfangsmiklum og brýnum framkvæmdum við Torfunefsbryggju og í næsta nágrenni hennar.

Gjaldskrárhækkunum stillt í hóf

Útsvarsprósenta og álagningaprósenta fasteignaskatts verður óbreytt frá yfirstandandi ári. Útsvar er 14,97%, fasteignaskattsálagning á íbúðarhúsnæði er 0,31% af fasteignamati, 1,32% af opinberu húsnæði og 1,63% af öðru húsnæði.

Gjaldskrárhækkunum er stillt í hóf í samræmi við samkomulag sem gert var í tengslum við kjarasamninga 2024. Gjaldskrár hækka almennt um 3,5% með örfáum undantekningum. Til að mynda er engin breyting á gjaldskrá barna í Hlíðarfjalli og Sundlaugar Akureyrar, gjaldskrá tómstunda í Sölku og Birtu, félagsmiðstöðvum fólksins, Bifreiðastæðasjóðs og leyfisgjöldum fyrir hunda, ketti og búfé. Einstaka gjaldskrár hækka meira.

Ítarlegri upplýsingar um fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2025-2028 er að finna í frétt á heimasíðu sveitarfélagsins.

Nýjast