Ágúst með nýtt myndband - Eins og þú
Ágúst Þór Brynjarsson er einn af þátttakendum í Söngvakeppni Sjónvarpsins en þar mun hann flytja lagið Eins og þú (e. Like You). Í dag kom út nýtt myndband við lagið sem hægt er að hlýða á neðst í fréttinni.
Ágúst er er fæddur og uppalinn á Húsavík og bjó þar til 18 ára aldurs en er í dag búsettur á Akureyri. Lagahöfundar eru Ágúst sjálfur, Hákon Guðni Hjartarson og Halldór Gunnar Pálsson Fjallabróðir.
Ágúst segir í samtali við Vikublaðið að lagið fjalli um tilfinningarnar sem bærast í brjósti manns þegar ástin bankar að dyrum.
„Lagið fjallar um það þegar þér líður eins og þú hafir unnið í ástar lottóinu, þú bara trúir ekki að þú fáir að elska manneskjuna þér við hlið. Við Hákon erum mjög ánægðir með að hafa náð að halda sömu skilaboðum í báðum textum. Hvort sem þú hlustar á lagið á ensku eða íslensku þá er tilfinningin sú sama,“ segir Ágúst og bætir við að hann hafi farið alla leið með lagið og búið til myndband fyrir það sem nú er komið út.
„Það var skotið bæði í Reykjavík og svo einnig heima á Húsavík. Mig langaði að nýta þá tengingu sem Eurovision hefur við heimabæinn minn Húsavík og þá staðreynd að ég var bara á sama stað og hann Lars, ( Will Ferrel ) og sýna að villtustu handrit geta orðið að veruleika,“ segir Ágúst og vísar þar í bíómynd Will Ferrel, Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga sem var að miklu leiti tekin upp á Húsavík.