Sundlaugar Akureyrar - Ríflega 400 þúsund gestir á liðnu ári
„Það er líf og fjör hjá okkur alla daga og jafnan mikið um að vera,“ segir Gísli Rúnar Gylfason forstöðumaður Sundlauga Akureyrar. Nýtt útisvæði var tekið í notkun nýverið við Glerárlaug og framkvæmdir standa sem hæst við breytingar í innlauginni við Sundlaug Akureyrar.
Ríflega 400 þúsund gestir sóttu Sundlaugar Akureyrar heim á liðnu ári og segir Gísli Rúnar það á svipuðu róli og árið þar á undan. „Gestir hafa verið á því bili nokkur undanfarin ár þannig að fjöldinn er svipaður og verið hefur,“ segir hann.
Bretar flykkjast í sund
Yfir vetrarmánuði eru grunnskólabörn í skólasundi áberandi í hópi gesta lauganna og að frá vori fram á haust er ferðafólk stór hluti af sundlaugargestum. „Annars eru ferðalangar á ferðinni allan ársins hring núna og við tökum vel eftir því hversu margir Bretar hafa komið í sund síðustu mánuði en þar eru á ferðinni farþegar með beinu flugi easyJet til Akureyrar. Þeir kunna greinilega vel að meta að skella sér í góðar útisundlaugar.“
Framkvæmdir við endurbætur í innisundlaug standa nú yfir. Búið er að rífa niður bakka laugarinnar og saga glugga niður. „Svo verður byrjað að byggja upp og við gælum við að geta tekið laugina í notkun áður en skólahald hefst síðsumars,“ segir hann en sundkennsla yngsta aldurshóps grunnskólann fer fram í innilauginni. Á meðan á framkvæmdum stendur er kennt í lendingarlaug við rennibrautir og þær lokaðar á morgnana. „Verkið gengur vel en vissulega eru alls konar þættir sem geta haft áhrif á framvinduna og tafið hana en við vonum það besta.“
Nýju útisvæði vel tekið
Nýtt útisvæði við Glerárlaug var opnað í liðinni viku eftir umfangsmiklar endurbætur. Tveir nýir heitir pottar eru á svæðinu, kalt kar, útisturta og saunaklefi var settur upp. Þá var skipt um yfirborðsefni og aðgengi og umhverfi bætt. Gömlu útiklefarnir voru fjarlægðir og skjólveggur endurnýjaður að hluta.
„Þetta eru kærkomnar breytingar enda var útisvæðið löngu komið á tíma. Við heyrum að okkar gestir eru mjög ánægðir og glaðir með breytingarnar á útisvæðinu. Þeim þykir mikill fengur að gufubaðinu sem er nýjung við Glerárlaug og skemmtilegt viðbót,“ segir Gísli Rúnar og á allt eins von á að nýtt og betra útisvæði laði að sér nýja notendur til viðbótar við trygga fastagesti.
Nýr saunaklefi hefur vakið lukku meðal sundiðkenda í Glerárlaug