Súlur Björgunarsveit býður á opið hús í tilefni af 25 ára afmæli
Súlur Björgunarsveit á Akureyri fagnaði 25 ára afmæli sínu á liðnu hausti. Sveitin varð til með sameiningu þriggja björgunarsveita; Flugbjörgunarsveitarinnar á Akureyri, Hjálparsveitar skáta á Akureyri og Sjóbjörgunarsveit SVFÍ. Stofndagur var 30. október árið 1999 „Þetta varð mikið gæfuspor og til varð ein öflugasta björgunarsveit landsins sem á sér sterkt bakland meðal íbúa og fyrirtækja á Akureyri,“ segir Halldór Halldórsson formaður Súlna.
Haldið verður upp á áfangann með opnu húsi í bækistöðvum Björgunarsveitarinnar Súlna við Hjalteyrargötu 12 næstkomandi sunnudag, 26. janúar frá kl. 14 til 17. „Við vonum að bæjarbúar grípi tækifærið og komi í heimsókn og kynnist sér fjölbreytt starf okkar, tæki, húsnæði og búnað,“ segir hann en boðið verður upp á kaffi og kleinur sem og afmælisköku. Formaðurinn segir að stjórn Súlna vilji þakka íbúum fyrir stuðninginn um árin, „við höfum alla tíð fundið fyrir miklum velvilja í okkar nærsamfélagi og fyrir það eru við þakklát.“
Vélaskemman er góð viðbót
Súlur keyptu fljótlega eftir sameiningu 1.150 fermetra byggingu við Hjalteyrargötu þar sem áður hafði verið rekin heildsala. Húsnæðið var smám saman gert upp og aðlagað að starfsemi sveitarinnar. Eftir því sem árin liðu varð þrengra um tækjakostinn, tækjum fjölgaði og þau urðu stærri. „Það hefur staðið til í mörg ár að bæta úr og byggja vélaskemmu á lóðinni. Það er ánægjulegt að sú ósk okkar rættist á afmælisárinu,“ segir Halldór. Skemman er um 330 fermetrar að stærð og þar rúmast öll tæki sveitarinnar innanhúss. „Við náðum að taka vélaskemmuna í notkun fyrir áramót og hún nýttist því vel við undirbúning að árlegri áramótaflugeldasýningu sem við höfum staðið fyrir um árin með Norðurorku sem helsta styrktaraðila.“
Ný 330 fermetra vélaskemma er risin á lóð Súlna þannig að nú er hægt að geyma farartæki og búnað innandyra. Hér er verið að taka fyrstu skóflustunguna, nánast í hríðarveðri í byrjun sumars í fyrra.
Aðgerðarstjórn Almannavarna á Norðurlandi hefur undanfarin ár leigt aðstöðu hjá Súlum og þar er stjórnstöð fyrir almannavarnir í landshlutanum. Rýmið var stækkað á liðnu ári og aðstaða bætt. Aðstaða almannavarna verður einnig til sýnis á afmælishátíðinni á laugardag.
Vel gengur að fá nýliða
Um 120 manns eru á útkallslista sveitarinnar og segir Halldór að vel hafi tekist að endurnýja mannskap og fá reglulega inn áhugasamt fólk. „Þar skiptir mestu að við bjóðum upp á öflugt nýliðastarf, við tökum inn nýliða í þjálfun á hverju hausti. Við tekur ströng þjálfun sem stendur yfir í tvö ár áður en viðkomandi getur vígst inn í sveitina,“ segir hann. Starfsemi Súlna skiptist í nokkra flokka og sérhæfa félagar sig í mismunandi verkefnum, s.s. fjalla- eða sjóbjörgun og þá hefur sveitin á að skipa fólki með sérhæfingu í notkun flókins tækjabúnaðar. Halldór segir að þess sé ávallt gætt að bjóða upp á mikla sí- og endurmenntun sem fram fari í samvinnu við björgunarskóla Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Haldin eru fjölmörg námskeið á ýmsum sviðum á hverjum vetri.
Súlur eiga góðan tækjakost og er vel búin fjölbreyttum tækjum. Meðal annars eru í hennar eigu nokkrir breyttir fjallajeppar, snjósleðar, snjóbíl, vörubíll, buggýbílar, vélsleðar, bátur og sæþotur auk þess sem sveitina á dróna og fjölbreyttan búnað til björgunarstarfa hvort heldur sem er í fjalllendi eða við straumvötn.
Mörg útköll eru krefjandi
Halldór segir að undanfarin ár hafi sveitin að jafnaði verið kölluð út um 30 sinnum á ári. „Það reynir mismikið á sveitina frá einu ári til annars. Stundum fáum við nokkur erfið útköll einkum yfir veturinn, en þess á milli er rólegra. Eðli málsins samkvæmt er mikil óvissa ríkjandi í þessu starfi og enginn veit hvenær kallið kemur. Það ræðast svolítið af landfræðilegum einkennum svæðisins hvert eðli útkalla og viðbragðs er. Þannig er fjalllendi Tröllaskagans mikið snjóflóðasvæði og margt fólk stundar útivist, m.a. á svæði Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands í Hlíðarfjalli. Til að vera sem best viðbúin höfum við haldið snjóflóðaæfingar í Hlíðarfjalli í samvinnu við aðra viðbragðsaðila á hverjum vetri og eins höfum við haldið æfingar sem miða að því að ná fólki úr skíðalyftum komi upp bilanir,“ segir hann og bætir við að í útköllum reyni mikið á félagana enda séu þau mörg hver mjög krefjandi.
Á hverjum vetri er haldin snjóflóðaæfing í Hlíðarfjalli.