Rúm 90% bæjarbúa ánægð með að búa á Akureyri

Mynd: María Helena Tryggvadóttir
Mynd: María Helena Tryggvadóttir

Ánægja með þjónustu Akureyrarbæjar eykst á milli ára samkvæmt niðurstöðum nýrrar þjónustukönnunar sem Gallup gerði og kynnt hefur verið fyrir fulltrúum sveitarfélagsins.

Í könnuninni kemur meðal annars fram að 91% bæjarbúa eru ánægð með að búa á Akureyri, 84% eru ánægð með aðstöðu til íþróttaiðkunar í bænum, 79% eru ánægð með nánasta umhverfi við heimili sín, 77% með grunnskólana, 70% með þjónustu leikskóla og 74% með þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið.

„Það er alltaf forgangsatriði hjá okkur að þjóna bæjarbúum sem allra best og við viljum allt til þess vinna að fólkið sé ánægt með þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir. Þróunin síðustu ár sýnir að við erum á réttri leið," segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

„Það gleður mig sérstaklega að sjá aukna ánægju með bæði grunn- og leikskóla í ljósi þeirrar vinnu sem lögð hefur verið í nýja menntastefnu og breytingar á gjaldskrá fyrir leikskóla. Þeim breytingum hefur verið vel tekið. Góðir skólar og góður aðbúnaður fyrir unga fólkið skipta gríðarlega miklu máli fyrir hvert sveitarfélag.

Allir aðrir þættir sem spurt er um koma einnig mjög vel út og mælist aukin ánægja á milli ára. Ánægja með sorphirðu dalar að vísu lítið eitt þótt við séum alltaf töluvert yfir landsmeðaltalinu. Skýring á því er án efa sú að könnunin var gerð á sama tíma og óviðráðanlegar tafir höfðu orðið á innleiðingu fjórflokkunar við heimahús. Ég er ekki í vafa um að ánægja bæjarbúa með þennan þjónustuþátt eykst að nýju þegar nýtt sorphirðukerfi verður komið í fastar skorður og tunnuskiptin um garð gengin en nú sér fyrir endann á því verkefni.

Þótt við getum sannarlega fagnað niðurstöðunum heilt yfir þá er gott að fá áminningu um það hvar við getum gert gott ennþá betra og það ætlum við svo sannarlega að gera,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

Smelltu hér til að skoða niðurstöður könnunarinnar.

Það var á vef bæjarins sem þetta kom fyrst fram

Nýjast