Akureyri-Verkefnastjórar sinna stuðningi við nemendur af erlendum uppruna
Ingibjörg Margrét Magnúsdóttir, kennsluráðgjafi ÍSAT hjá fræðslu- og lýðheilsusviði Akureyrarbæjar, og Halla Kristín Tulinius, verkefnastjóri og ÍSAT kennari við Brekkuskóla Mynd akureyri.is
Í öllum grunnskólum á Akureyri starfa verkefnastjórar sem sinna stuðningi við nemendur af erlendum uppruna. Tilraunaverkefnið hófst árið 2020 í Brekkuskóla og Oddeyrarskóla og haustið 2021 byrjaði Síðuskóli með sitt tilraunaverkefni, þar sem Sigrún Helga Snæbjörnsdóttir var ráðin í stöðu ÍSAT kennara og utanumhald allra fjöltyngda nemenda. Haustið 2022 voru svo verkefnastjórar ráðnir í öll skólahverfi og á sama tíma var aukið í stuðning við fjöltyngda nemendur í grunnskólum bæjarins.
Ingibjörg Margrét Magnúsdóttir, kennsluráðgjafi ÍSAT (íslenska sem annað tungumál) hjá fræðslu- og lýðheilsusviði Akureyrarbæjar, og Halla Kristín Tulinius, verkefnastjóri og ÍSAT kennari við Brekkuskóla, segja að markmið verkefnisins sé að tryggja góðar móttökur og stuðning og markvisst utanumhald og eftirfylgni.
Ingibjörg Margrét segir nemendum af erlendum uppruna hafa fjölgað mikið á undanförnum árum, sérstaklega flóttabörnum sem oft krefjast aukins utanumhalds vegna reynslu sinnar. „Staða þeirra er mjög misjöfn. Sum hafa verið í skóla þangað til þau koma til okkar og geta gengið inn í námið en á öðru tungumáli, á meðan önnur hafa rof á sinni skólagöngu. Áskoranirnar eru því fjölbreyttar,“ segir hún og bætir við að mikil vitundarvakning sé í gangi um mikilvægi þess að hjálpa börnum að aðlagast samfélaginu.
Þær segja verkefnið hafa gengið vel. „Munurinn er að áður kom nemandinn beint í bekkinn og þá þurfti umsjónarkennarinn að finna út hvernig hann gæti aðstoðað hann, meðfram öllu hinu. Nú skipuleggja verkefnastjórarnir móttökuna, námsefnið og aðferðirnar í byrjun. Krakkarnir eru öruggari fyrir vikið og umsjónakennararnir ánægðir með stuðninginn. Við virkjum einnig bekkjarfélagana til að bjóða nýju nemendunum með í mat og í frímínútur, svo barnið verði strax hluti af bekknum. Nemendur vinna í bekkjarstofunum sínum en fá líka tíma í íslensku sem annað mál hjá okkur. Við höldum þannig utan um nemendur meðan þess er þörf og er stofan okkar í byrjun þeirra griðastaður, þangað sem þau geta komið ef þau eru óviss.“
Hér er hægt að fræðast meira um ÍSAT.
akureyri.is sagði fyrst frá