6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Afrakstur í Bragganum Yst í Öxarfirði
Í tengslum við Sólstöðuhátíðina á Kópaskeri 17.-20. júní mun sýningin Hringsól / Turnings vera opin, en um er að ræða margræða sýningu á myndverkum eftir sænska, breska og íslenska listamenn. Verkin voru gerð og sett upp í 10 daga listamannadvöl í Bragganum Yst í Öxarfirði í maí 2022. Þau endurspegla umhverfi, íbúa og náttúruna kringum Braggann Yst. Verkin eru líka með skírskotun til yfirvofandi umhverfisvár með tilheyrandi kvíða og óvissu en jafnframt von og tilfinningu fyrir endurnýjun í gegnum samskipti og samvinnu.
Það var listakonan Yst eða Ingunn St. Svavarsdóttir sem opnaði dyr sínar fyrir listafólkið og nú gesti til að njóta. Listafólkið sem unnu sýninguna eru Yst; Ingunn St. Svavarsdóttir frá Íslandi, David Foggo frá Bretlandi, Kathryn Johnson frá Bretlandi og Helen Edling Svíþjóð og John Maclean Svíþjóð/Bretlandi.
Verkefnið var eitt af þeim frábæru verkefnum sem hlutu styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra (NE) 2022.
Þess má jafnframt geta að þann 20. júní fara fram tónleikar með Bríeti og eru þeir hluti af tónleikaröð Flygilvina tónlistarfélags við Öxarfjörð, en sú röð hlaut jafnframt styrk úr Uppbyggingarsjóði NE 2022.
Ljóst er að íbúar og gestir Öxafjarðarhéraðs geta göfgað andann undir sólinni næstu daga.