Afleitt að Sæfari verði í slipp í apríl
Grímseyingar óska eftir aðstoð við að fá aðra tímasetningu en nú er þegar fyrirhugað er að ferjan Sæfari sem siglir milli lands og eyjar fer í slipp, sem er „afleit tímasetning bæði hvað varðar sjávarútveg og sérstaklega slæmt fyrir ferðaþjónustu í eynni,.“ segir í bókun frá íbúafundi sem haldinn var í eyjunni.
Grímseyingar telja betur fara á því að ferjan fari í slipp í desember eða janúar í framtíðinni. Þeir benda á að töluverð fjölgun sé af ferðamönnum sem leggi leið sína til Grímseyjar utan sumartímans. Því óska þeir eftir því að ferjan stoppi til kl. 15 á daginn ef ferðafólk er um borð. Tveggja tíma stopp sé alls ekki nægjanlegt, því oft kemur ferjan ekki til Grímseyjar fyrr en um 12.30 vegna veðurs og eða sjólags.