Ætlum okkur að slá út gott lið Hauka
Höldum áfram að taka hús á handboltaþjálfurum bæjarins en nú dregur til útslita eins og fram kom í gær í spjalli við Stevce Alusevski þjálfara Þórs. Það er Jónatan Magnússon þjálfari KA sem svarar í dag nokkrum spurningum okkar en lið hans byrjar i dag keppni i 8 liða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn þegar KA mætir Haukum á Ásvöllum í Hafnarfirði. Við lokum svo þessum handboltaþríleik á fimmtudag i næstu viku þegar Andri Snær Stefánsson þjálfari mfl KA/Þór verður fyrir svörum.
En gefum Jonna orðið.
Segðu okkur aðeins frá þjálfarnum Jonna Magg., fólk man eftir leikmanninum, fyrirliðið KA baráttuhundi, hvernig er að vera þjálfari?
Þjálfarinn Jonni held ég að sé þannig að ég tel mig vera undir áhrifum af því að hafa sem leikmaður haft afar góða og færa þjálfara sem ég hef reynt að taka mikið frá. Þjálfara hlutverkið er töluvert ólíkt því að vera leikstjórnandi og fyrirliði, en að því sögðu þá held ég að það hjálpi mér sem þjálfara að hafa verið í hinum hlutverkunum. Ég hef haft það þannig í mínum liðum sem þjálfari að ég hef reynt að hafa leikmenn með í ákvörðunum og reyni að hlusta á þá og þeirra skoðanir þegar kemur að því að ákveða hluti og leikskipulag. Kannski hefur það þróast þannig vegna þess að sem leikmaður hafði ég alltaf sterkar skoðanir.
Ertu sáttur við hvernig mfl gekk í vetur, er sjöunda sætið vonbrigði?
Veturinn hjá okkur hefur verið töluvert upp og niður, eða meira kannski niður og upp. Það tók langan tíma að finna takt í liðið, og framan að vetri vorum við ekki að spila vel. En að því sögðu þá voru töluverðar breytingar á hópnum milli ára, og því kannski ekkert óeðlilegt að hlutirnir hafi ekki smollið saman strax. Við höfum hins vegar verið á góðu skriði og spilað betur og betur og til að mynda vorum ansi nálægt því að taka titil, en því miður voru Valsmenn of sterkir. Nú er svo komið að úrslitakeppninni og erum við fullir tilhlökkunar, og erum sannfærðir að við getum gert vel þar og ætlum okkur að slá út gott lið Hauka þar. Það verkefni verður gríðarlega erfitt, en ég hef það mikla trú á hópnum að við getum það. Það sem gefur okkur svona mikla trú er ekki minnst vegna þess að KA á bestu stuðningsmenn landsins og ég vona að fólk fjölmenni og styðji við strákana í þessum leikjum sem eru framundan .
Maður heyrir af miklum uppgangi í yngri flokkunum, segðu okkur aðeins frá starfinu þar.
Yngri flokka starfið okkar hefur verið í stöðugri sókn, þar hefur verið unnið afar vel og samviskusamlega og vona ég að okkur gangi áfram vel þar, því það er grunnurinn af öllu meistaraflokks og afreksstarfi. Við erum að sjá mikla fjölgun iðkenda bæði hjá strákum og ekki síst stelpum sem er frábært. Við höfum verið með ótrúlega góða þjálfara og metnaðarfullt unglingaráð og tel ég það lykilinn af því að vel hefur gengið. Árangur í yngri flokkum er svo ekki metinn út frá titlum eða sætum í Íslandsmótum eingöngu, Það eru aðrir vinklar sem við horfum í þar. Við höfum lagt áherslu á að allir sem koma og æfa, séu sinnt vel og gildir það jafnt um stráka og stelpur.
Gamla góða spurningin er framtíðin björt?
Hvað varðar framtíðina, þá tel ég hana vera afar bjarta hjá okkur í handboltanum, í raun frá öllum sjónarhornum. Við eigum marga flotta krakka sem eru gríðarlega samviskusöm og æfa vel og eins og ég sagði áður þá eru fjölgun í flestum flokkum. Það er svo hlutverk mitt og þeirra sem stýra yngri flokka batterínu að viðhalda og helst að bæta í.
Hvort er skemmtilegra að þjálfa yngir flokkana eða meirstaraflokkana? Hverngi gengur að tvinna þetta saman?
Spurningin um hvort er skemmtilegra að þjálfa mfl eða yngri, er svarið einfalt ! Jafn skemmtilegt. Já ég veit að þetta er frekar klént svar en ég get með fullm fetum svarað þessu þannig. Það er ótrúlega gefandi að þjálfa krakka, og hef ég síðustu 6 árin verið með yngstu hópana, og ég get svo svarið það að ég hef hlakkað til hverrar einustu æfingu. Það eru svo ólíkar kröfum og ólíkir „sigrar“ sem vinnast, eftir því hvort þú sért að þjálfa meistaraflokkana eða krakka, en eins og staðan er núna, þó svo að að vera að þjálfa svona mikið geti verið krefjandi, þá er þetta skemmtilegasta starf sem ég get hugsað mér og ég vona að mér líði þannig áfram.