20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Að gera vel við eldra fólk
Bylgja Steingrímsdóttir skrifar
Kæri kjósandi
Framundan eru sveitarstjórnarkosningar og langar mig til þess að deila með þér hugrenningum mínum um framtíð okkar sveitarfélags, Norðurþings. Það er margt mjög gott í okkar samfélagi en það má samt alltaf gera betur.
Fyrir 19 árum síðan varð ég þeirra gæfu njótandi að fá starf á hjúkrunardeildinni Skógarbrekku hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og starfa ég í dag sem sjúkraliði á Sjúkradeild hjá HSN-Húsavík, þar af leiðandi er ég í miklum samskiptum við eldra fólk og er mjög umhugað um þeirra velferð. Samfélagið er að eldast og er mikilvægt að bregðast við því og vanda til verka. Hvernig getum við aukið á lífsgæði eldra fólks og stuðlað að því að fólk haldi góðri heilsu og geti verið lengur heima?
Aukin fjölbreytni
Mín skoðun er sú að við eigum að stuðla að aukinni, fjölbreyttri og markvissri hreyfingu eldra fólks, því það er staðreynd að með markvissu heilsuátaki seinkar það innlögnum á hjúkrunarheimili og bætir lífsgæði á efri árum, má þar nefna Janursarverkefnið sem hefur reynst mjög vel í öðrum sveitarfélögum s.s. Reykjanesbæ, Garðabæ og Vestamanneyjum. Heilsuefling er ekki eingöngu líkamleg, heldur er einnig mikilvægt að gera fólki kleift að taka þátt í skapandi félagsstarfi og koma þannig í veg fyrir að fólk einangrist.
Hvammur?
Hvað vill eldra fólk og hvaða þjónustu eigum við að veita þeim? Á næstu árum munum við taka í notkun nýtt hjúkrunarheimili og opnast þá fullt af tækifærum, hvað ætlum við þá að gera við Hvamm? Ættu áherslur okkar ekki að vera þær, að hanna þá byggingu þannig að hún muni áfram þjóna því hlutverki að nýtast eldra fólki? Jú, það finnst mér, ég sé fyrir mér að þar verði litlar þjónustuíbúðir, eins og við vitum er fullt af fólki sem þarf ekki endilega inn á hjúkrunarheimili en treystir sér kannski ekki lengur til að vera heima í stóru húsunum sínum. Þar væri jafnvel boðið upp á skapandi félagsstarf og annars konar tómstundariðju. Einnig sé ég tækifæri í að efla þar annars konar þjónustu eins og t.d. dagvistun fyrir fólk með heilabilun, það er þjónusta sem við höfum ekki verið að sinna en er mjög mikil þörf fyrir. Gerum vel við það fólk sem hefur á undangengnum árum og áratugum byggt upp þetta samfélag og á svo sannarlega skilið að eiga góða ævidaga í okkar fallega sveitarfélagi Norðurþing.
Ég mun leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að bæta okkar samfélag fái ég þitt umboð í komandi sveitarstjórnarkosninum þann 14.mai nk
Bylgja Steingrímsdóttir 4.sæti á B-lista Framsóknar og félagshyggjufólks.