20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Áætlað að slátra um 88 þúsund fjár á Húsavík
Sláturtíð hófst hjá Kjarnafæði Norðlenska á Húsavík í fyrradag. Áætlað er að hún standi yfir til loka október, ljúki 31. þess mánaðar og á þeim tíma er gert ráð fyrir að slátra á bilinu 87.500 til 88.000 fjár.
Sigmundur H. Hreiðarsson framleiðslustjóri segir að vel hafi gengið að ráða fólk til starfa. „Það er allt klárt og uppistaðan í okkar starfsliði er fólk sem hefur verið hér áður, mjög margir hafa komið mörg undanfarin ár,“ segir hann en starfsfólki í komandi sláturtíð kemur frá 13 þjóðlöndum. „Undirbúningur hefur gengið vel, enda höfum við á að skipa mjög sterkum kjarna fólks sem kann til verka.“
Þá segir Sigmundur að niðurröðum hafi gengið vel, „og við búum svo vel að hafa frábæra tengiliði í sveitunum okkar til aðstoðar, en við höfum þann háttinn á að reyna ævinlega að hafa a.m.k. þrjár vikur klárar fram í tímann.“
Gott samstarf er grunnurinn
Sigmundur segir það stórt verkefni að takast á við sláturtíð, margir komi að og gott samstarfs starfsfólks við bændur og verktaka sem sjá um margvísleg verk í tengslum við hana sé grunnurinn að góðu gengi. „Ég vitna nú stundum í textann hjá handboltalandsliðinu okkar: Gerum okkar, gerum okkar besta og aðeins betur ef það er það sem þarf.“