13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
50 ára afmælisfagnaður Geðverndarfélags Akureyrar
Geðverndarfélag Akureyrar hélt upp á 50 ára afmæli sitt nýverið, en félagið var stofnað þann 15. desember 1974. Um 50 manns mættu í fagnaðinn, hlýddu á fróðleg erindi, nutu lifandi tónlistar og glæsilegra veitinga.
Sigríður Gísladóttir framkvæmdastjóri Okkar heims flutti áhrifaríkt erindi um börn sem eiga foreldra með geðrænan vanda og stuðningsúrræði við fjölskyldur í þessari stöðu. Að erindi hennar loknu tók hún við hálfrar miljónar króna styrk til Okkar heims frá Geðverndarfélagi Akureyrar sem fengist hafði frá Samfélagssjóði Landsbankans. Það er einlæg von stjórnar Geðverndarfélags Akureyrar að Okkar heimi takist að afla nægilegs fjár til að geta hafið starfsemi á Norður- og Austurlandi á næstu misserum.
Að mati stjórnarmanna tókst einstaklega vel til með þennan afmælisfagnað. Góður rómur var gerður að dagskrárliðum og margir nýttu tækifærið og skráðu sig í félagið.
Stjórn GVA, frá vinstri: Þuríður Rósenbergsdóttir, Einar Brynjólfsson, Valdís Eyja Pálsdóttir, Brynjólfur Ingvarsson og Sigurgeir Guðjónsson. Á myndina vantar Friðrik Einarsson og Agnesi Ýri Aðalsteinsdóttur.
Afmælisgestir hlýða á Brynjólf Ingvarsson sem átti þátt í að stofna félagið á sínum tíma og hefur unnið óeigingjarnt starf í þágu félagsins alla tíð.
Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs Akureyrar, ræðir við Sigríði Gísladóttur, framkvæmdastjóra Okkar heims.