Við þurfum frk Ragnheiði á Akureyri
Verkefni frk Ragnheiðar á Akureyri, er merkilegt fyrir margra hluta sakir og er það sjálfboðaliðastarf sem þar er unnið er vægast sagt aðdáunarvert. Frú Ragnheiður á Akureyri, er skaðaminnkandi verkefni á vegum Eyjafjarðardeildar Rauða Krossins á Akureyri, sem hefur verið starfrækt í bænum frá árinu 2018. Verkefnið miðar að þjónustu við einstaklinga með erfiðan fíknivanda og veitir þeim, heilbrigðisaðstoð, sálrænan stuðning og nálaskiptaþjónustu. Unnið er samkvæmt hugmyndum um skaðaminnkun sem snýst m.a. um að draga úr jaðarsetningu þeirra sem glíma við erfiðan fíknisjúkdóm. Skjólstæðingar frk Ragnheiðar á Akureyri voru fyrstu átta mánuði yfirstandandi árs 32 talsins, komur í bíl Frú Ragnheiðar eru orðnar 262 á sama tíma.
Mannréttindaviðurkenning Akureyrarbæjar
Frá upphafi verkefnisins hefur fjölbreyttur sjálfboðaliðahópur mannað þrjár vaktir í viku, allan ársins hring. Tveir sjálfboðaliðar eru á hverri vakt, annar með heilbrigðismenntun. Þær Berglind Júlíusdóttir og Edda Ásgrímsdóttir, fengu á þessu ári mannréttindaviðurkenningu Akureyrabæjar fyrir framlag sitt til frk Ragnheiðar. Þær hafa verið sjálfboðaliðar og frumkvöðlar þessa verkefnis, hafa gefið tíma sinn og þekkingu í þágu mannúðar fyrir skjólstæðinga sem margir hverjir eru jaðarsettir vegna stöðu sinnar. Þær og aðrir sjálfboðaliðar verkefnisins hafa sannarlega unnið óeigingjarnt og þakkarvert starf.
Ríki og sveitarfélög þurfa að vera með
Það er fjölbreyttar áskoranir sem blasa við skjólstæðingum Frú Ragnheiðar, þá helst næringar- og húsnæðisvandi. Fram hefur komið áhugi hjá aðstandendum verkefnisins að þróa betur samstarf frk Ragnheiðar og opinberra aðila, m.a. við Akureyrarbæ. Augljóst er eftir þessi fyrstu ár í starfsemi Frú Ragnheiðar að þörfin hér á Akureyri er sannarlega til staðar. Akureyrarbæ hefur nú þegar borist beiðni frá Rauða krossinum um stuðning við verkefnið. Verður það í höndum velferðarráðs Akureyrarbæjar að taka afstöðu til þeirrar beiðni, en mun ráðið á næstu vikum auglýsa eftir styrkbeiðnum og taka í kjölfarið ákvörðun. Ríkið, Akureyrarbær og nærliggjandi sveitarfélög ættu að styðja við þetta mikilvæga verkefni með því að gera langtímasamning við Frú Ragnheiði, sem skapar fyrirsjáanleika í starfi þeirra. Við hreinlega getum ekki látið eins og málefni skjólstæðinga frk Ragnheiðar komi okkur ekki við.
Hilda Jana Gísladóttir
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri