Versti vetur í manna minnum

Aga Jastrząbek.
Aga Jastrząbek.

Nei, það er ekki þannig sem ég lýsi mögulega varanlegri dvöl minni á Íslandi. Þó svo að hún hafi sínar hæðir og lægðir. Ég er ekki persóna sem öskrar: Ég ELSKA ÍSLAND! Landið er svo fallegt með stórbrotinni náttúru og þess vegna ákvað ég að flytja hingað og svo framvegis. Ég elska ekki Ísland, heldur elska ég Íslending. Til að gera langa sögu stutta. Ég flutti til Akureyrar út af manninum mínum. Fyrir 10 árum síðan, þá vissi ég bara að Ísland væri til, langt í burtu. Einhversstaðar sem ég myndi aldrei fara af því að það er svo kalt. Núna kann ég að bera fram nöfn allra eldfjalla á Íslandi, ég bið um rabbabara á sumrin til þess að búa til sultu, drekk uppáhellt kaffi í lítravís og reyni að fara út að hlaupa í hvaða veðri sem er.

Ég sagði að ég elska ekki Ísland. En þetta er ekki alveg satt. Ég elska Akureyri. Ég þekki bara að búa á Akureyri. Ég kom hingað í fyrsta sinn árið 2014 og þá sem skiptinemi á vorönn. Ástæðan fyrir því að ég kom var mjög einföld. Ég talaði góða ensku en franskan mín var ekki nógu góð til þess að fara til Frakklands þar sem háskólar í Frakklandi gefa skiptinemum engan afslátt. Ég var líka að fara í gegnum Sigurrósar tímabil í mínu lífi sem gerði ákvörðunina að fara til Íslands auðveldari. En þetta tímabil var búið þegar ég flutti til Íslands. Ég uppgötvaði að það er miklu meira í íslenskri tónlist heldur en Björk og Sigur Rós, eins og til dæmis Bubbi og Nýdönsk. Maðurinn minn var eini Íslendingurinn sem var í sambandi við okkur skiptinemana, ég verð að viðurkenna að þetta var mjög heppilegt! Það voru engin önnur samskipti sem olli okkur vonbrigðum þrátt fyrir að við höfðum verið vöruð við af nemendum haustannar. En ég aðlagaðist, að eilífu. 

Þegar ég flutti til Akureyrar í júlí árið 2016 leit bærinn út allt öðruvísi. Hann var ekki lengur sætur partýbær (Pósthúsbarinn - blessuð sé minning hans). Ég þurfti að finna nýjar leiðir í gegnum bæinn, kynnast Íslendingum fyrir alvöru og já: læra íslensku, ég komst ekki hjá því. Hvað var það sem var erfiðast? Fólk sem í dag hrósar mér fyrir íslenskuna mína sá ekki tárin, niðurlæginguna, reiðina og “ég á ekki heima hér” tilfinninguna. Að koma sér fyrir í algjörlega öðruvísi menningu er mjög tilfinningalegt ferli. Gleðitár þegar þú hleypur í 20 stiga hita á sólríkum degi blandað saman við sorgartár þegar þú saknar fjölskyldunnar í Póllandi, eða íslenskan þín var aftur ekki nógu góð. 

Fyrir mörg ykkar, sum ykkar kannski þekkja mig persónulega, get ég verið gott dæmi um aðlögun að samfélaginu. Ég tala íslensku, ég fylgist með fréttum, ég hlusta á útvarpið og stunda heita pottinn. En þetta ferli er enn í gangi. Munið þið eftir fyrra vetri þegar við vorum á kafi og gátum ekki skipulagt neitt? Þá kom að tímamótum hjá mér. Ástandið var svo slæmt að ég ákvað að temja íslenska norðrið. Ég hætti ekki að hlaupa úti þó að ég hafði gert það fyrri ár á veturna, ég sættist á skapsveiflur íslenskrar náttúru og byrjaði að vera þakklát fyrir litlu hlutina, sérstaklega veðurglugga. Ég held að þið kallið þetta “þetta reddast”. Þetta verður allt í lagi í lokin. 

Ég datt í lukkupottinn með því að kynnast svona mörgum Akureyringum sem hjálpuðu mér að blómstra í samfélaginu, svo mikið að mér byrjaði að líða skringilega í Reykjavík, tala nú ekki um erlendis. Þetta hræðir mig stundum og manninn minn. Ég verð aldrei ein af ykkur en með hverjum degi kemst ég nærri því. Það er í lagi, pólska hugarfarið mitt virkar líka stundum og mig langar að halda í það. Sérstaklega háværar samræður við matarborðið sem er pakkfullt af mat. 

Á sama tíma reyni ég að skilja aðstæður annarra innflytjenda þegar þeir segjast ekki tala íslensku eða eru ekki að læra íslensku. Allir hafa sínar ástæður fyrir því að tala ekki, hvort sem það er gott eða slæmt. Eitt er víst: þeir þurfa að vilja að læra. Þetta er eins og að fara til sálfræðings. Þú þarft að ákveða að þú viljir breyta einhverju í þínu lífi. Það er erfitt að neyða einhvern til þess en tækifærin þurfa að vera til staðar. En aftur: viljinn þarf að koma frá hjartanu: að læra tungumálið og taka þátt í samfélaginu. Ef einhver segir að það sé ekki hægt, þá verður það þannig. En ef maður byrjar að vera þakklátur fyrir hvert nýtt orð, eða nýja setningu, er það þá í alvörunni ekki hægt?

Nú skora ég á Serenu Pedrana að taka við pennanum. 

-Aga Jastrząbek

 

Nýjast