Vasast í ýmsu

Jónas Þór Viðarsson
Jónas Þór Viðarsson

Jónas Þór Viðarsson skrifar

Í nútímasamfélagi eru sífellt fleiri sem velja sér að „múltí-taska“ og vasast í ýmsu. Tæknibreytingar og bættar samgöngur gera þetta mögulegt. Ég er einn af þeim sem vasast í ýmsu og mínir hattar sem ég set upp eru; foreldri, verktaki, bóndi, kennari, trúbador í frístundum og íbúi í dreifbýli. Það eru því ýmsir þættir innan sveitarfélagsins sem koma mér beint við. Og eflaust get ég tengt við daglega hluti flesta íbúa í Norðurþingi á einn eða annan hátt.

Foreldri

Sem foreldri þá geri ég þá kröfu að Norðurþing sjái til þess að börnum mínum bjóðist góðir skólar. Kennslan þarf að vera fjölbreytt og börnin að fá góðan aðbúnað og einnig þau sem þurfa sérkennslu.

Við í V-listanum viljum gera skólamáltíðir í leikskóla gjaldfrjálsar. Þannig skref ,lítil og markviss, munu létta aðeins á foreldrum með börn á leikskólaaldri.

Verktaki

Sem betur fer þá virðist verkefnastaða á flestum stöðum í Norðurþingi góð nú um stundir, t.d miklar framkvæmdir í fiskeldi á landi og margir möguleikar á grænum iðngörðum á Bakka til framtíðar líkt og Norðurþing og Landsvirkjun stefna að. Norðurþing verður að passa að verktakar í sveitarfélaginu hafi jafna aðkomu að verkum á vegum Norðurþings

Bóndi

Sem bónda er mér annt um umhverfið og í öllum mínum verkum hvort sem það tengist áhugamálum eða landbúnaði þá tengi ég alltaf sterkt við náttúruna og vill þar af leiðandi miða allt við hennar þarfir. Samkvæmt nýjustu útreikningum frá (jord.is) þá er búið mitt kolefnis jákvætt og leggjum við þar okkar að mörkum að gera Ísland að kolefnishlutlausi landi og er það eitthvað sem við verðum öll að hjálpast að með sem samfélag. Einnig seljum við okkar kjöt beint til viðskiptavina og náum þannig að minnka kolefnissporið. Bæði sem bóndi og íbúi þá er mikilvægt að allir íbúar nýti sér þá þjónustu sem er til staðar, t.d. get ég keypt flest allt sem tengist landbúnaði án þess að sækja það langt eða fá sent, jafnvel keypt mér skó, fatnað, byggingavöru og farið út að borða

Kennari

Sem kennari þá þekki ég til starfsumhverfisins í Lundi í Öxarfirði. Þar eru eins og gengur margir hlutir sem mega betur fara og ætlum við í V- listanum stuðla að bættu starfsumhverfi kennara og nemenda með auknu viðhaldi og bættum búnaði. Má þar nefna að ýmis búnaður er orðinn gamall og úr sér genginn og hljóðvist í skólum er ábótavant. Við þurfum að hafa vinnustaðinn þannig að kennurum og nemendum líði vel í skólanum.

Íbúi í dreifbýli

Sem íbúi í dreifbýli þá vil ég geta flokkað ruslið mitt eins og íbúar í þéttbýli. Fólk þarf að geta byggt sér hús eða keypt og fengið jafna grunnþjónustu hvar sem er í sveitarfélaginu. Ég vil að vegir séu mokaðir áður en umferð byrjar á morgnana þannig að ég komist leiða minna og geti t.d skotist í Mývatnssveit eða Egilsstaði um nýjan Dettifossveg yfir vetrartímann. Síðan er það ómetanleg þægindi að geta keyrt um 60 km á Aðaldalsflugvöll  til að geta flogið til Reykjavíkur. Þetta er eitthvað sem við í sveitarfélaginu verðum að standa vörð um og sýna að það sé þörf fyrir þessu ef við ætlumst til að þjónustan sé til staðar.

Það að vasast í ýmsu eins og ég og mín fjölskylda gerum hefur veitt okkur innsýn í marga kima í okkar samfélagi í Norðurþingi.  Mikilvægast er að við íbúar í Norðurþingi stöndum vörð um okkar innviði og sýnum ráðdeild í rekstri sveitarfélagsins. Ég stend með börnunum okkar, fjölbreyttum iðnaði, landbúnaði, náttúrunni, menningunni og fólkinu öllu - ungu sem öldnu.

Jónas Þór Viðarsson, foreldri, smiður, kennari, bóndi og frístunda-tónlistarmaður
Höfundur er í 3. sæti á V-listanum í Norðurþingi

 

 

 

Nýjast