Um eldvarnir og verndun gamalla timburhúsa
Í Vikublaðinu þann 19. nóvember sl. birtist grein eftir Ólaf Stefánsson slökkviliðsstjóra á Akureyri undir yfirskriftinni „Á að vernda gömul timburhús?“ Má af henni ráða að greinahöfundur telji löggjöf um aldursvernd gamalla timburhúsa vera ógn við öryggi fólks og skilvirkar eldvarnir í umdæmi sínu. Í greininni eru ennfremur villandi upplýsingar um afstöðu Minjastofnunar Íslands til endurbóta á gömlum húsum með tilliti til brunavarna.
Í lögum um menningarminjar sem tóku gildi árið 2013 er húsum og mannvirkjum sem náð hafa 100 ára aldri tryggð vernd vegna aldurs. Í aldursfriðuninni felst að fá þarf leyfi Minjastofnunar hyggist húseigandi gera breytingar á eign sinni, byggja við húsið, rífa það eða flytja. Þessi krafa tekur til leyfisskyldra breytinga á fasteign sem skylt er að leggja fyrir byggingaryfirvöld viðkomandi sveitarfélags samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar. Minjastofnun berast í hverjum mánuði umsóknir um breytingar og endurbætur á friðuðum húsum þar sem tekið er tillit til öryggis- og eldvarnarsjónarmiða svo sem skylt er. Er mér ekki kunnugt um neitt það tilvik frá gildistöku laganna þar sem Minjastofnun hefur lagst gegn nauðsynlegum endurbótum á eldri húsum sem miða að því að tryggja öryggi fólks og draga úr brunahættu. Algengt er að hönnuðir endurbóta á eldri byggingum leiti samráðs við Minjastofnun um lausnir á brunahólfun, flóttaleiðum og björgunaropum þannig að virðing sé jafnframt borin fyrir útliti og sögu viðkomandi húss.
Vafasöm er sú staðhæfing Ólafs að miklar kröfur Minjastofnunar um að „vernda hverja spítu og nagla í upprunalegri mynd“ sé þrándur í götu brunavarna í gömlum timburhúsum. Nærtækara væri að beina spjótum að hinum raunverulega vanda, þeirri landlægu ómenningu að sinna ekki viðhaldi húsa og láta fasteignir drabbast niður og eyðileggjast. Það á við um gömul timburhús sem önnur mannanna verk að þau þarfnast reglubundins viðhalds og réttrar umhirðu. Auk þess er oftast óhjákvæmilegt að gera á þeim breytingar til að þau uppfylli kröfur samtímans um öryggi og gæði húsnæðis. Ef reglum er fylgt og vandað til verks við endurbætur geta gömul timburhús verið jafn örugg híbýli og steinhús með tilliti til brunavarna. Undirrituðum er ekki kunnugt um að gerð hafi verið úttekt á tíðni manntjóns og slysa af völdum bruna í tilteknum gerðum bygginga. Því er varhugavert að draga víðtækar ályktanir um aldur húsa og öryggi þeirra nema að fyrir liggi traust gögn. Fallega endurgerð timburhús eru meðal eftirsóttustu fasteigna í miðborg Reykjavíkur og víðar. Vísbendingar eru um að timbur verði í auknum mæli nýtt sem byggingarefni á komandi árum vegna umhverfissjónarmiða enda hægur vandi að tryggja brunavarnir með nútíma efnum og tækni. Nærtækt dæmi eru höfuðstöðvar Hafrannsóknarstofnunar í nýreistu fimm hæða timburhúsi í Hafnarfirði.
Starfsfólki Minjastofnunar Íslands er það kappsmál að eiga gott samstarf við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og forsvarsmenn brunamála um allt land í því sameiginlega verkefni að tryggja traustar eldvarnir í eldri byggingum sem er mikilvæg forsenda fyrir nýtingu þeirra og þar með varðveislu. Má í því sambandi minna á Leiðbeiningar Mannvirkjastofnunar og Minjastofnunar um brunavarnir í friðlýstum kirkjubyggingum sem aðgengilegar eru á heimasíðum beggja stofnana. Í grein sinni vekur Ólafur Stefánsson athygli á þeirri alvarlegu brotalöm sem er á eldvarnareftirliti í úrsérgengnu og ósamþykktu húsnæði þar sem slökkvilið landsins skortir lagaheimildir til eftirlits og fyrirbyggjandi aðgerða til að tryggja öryggi íbúa. Skal tekið heilshugar undir áskorun hans til stjórnvalda um úrbætur í því mikilvæga máli og öðru því sem snýr að bættum eldvörnum í íbúðarhúsum.
-Pétur H. Ármannsson, höfundur er arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands