Tíma henti­stefnu í orku­málum er lokið

Ingibjörg Ólöf Isaksen
Ingibjörg Ólöf Isaksen

Fögur orð duga skammt ef hugur fylgir ekki með. Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra og for­maður Vinstri grænna, kynnti upp­færð mark­mið Ís­lands í lofts­lags­málum á leið­toga­fundi í desember 2020. Upp­færð mark­mið kveða á um 55% sam­drátt í losun gróður­húsa­loft­tegunda fyrir árið 2030 í sam­floti með Noregi og ESB. Þessi mark­mið eru göfug og góð en svo það verði raun­hæft að ná þeim verður að huga að orku­öflun með grænni orku.

Við höfum verk að vinna

Sam­hliða því að draga úr losun gróður­húsa­loft­tegunda bíður okkur verðugt verk­efni við að byggja upp flutnings­kerfi raf­orku í landinu á­samt því að sjá til þess að orku­þörf sam­fé­lagsins sé upp­fyllt. Þrátt fyrir ótal við­varanir og á­köll eru ein­staklingar hér á landi sem neita að horfast í augu við sann­leikann þegar kemur að stöðunni í orku­málum hér á landi. Það dugar ekki að vera tví­ráð í skoðunum og vona það besta ef við ætlum okkur að ná þeim mark­miðum sem við höfum sett um losun gróður­húsa­loft­tegunda og um orku­skipti í sam­göngum. Við höfum verk að vinna og við þurfum að gera það með virku sam­tali og sáttar­leiðum í málum sem þykja erfiðari en önnur.

Fram­tíð í vindorku

Mikil fram­þróun hefur orðið í vindorku­tækni á síðustu árum, það mikil að nú fyrst er hægt fyrir al­vöru að ræða um upp­byggingu vindorku­vera á Ís­landi. En því miður er um­ræða um vindorku strax komin í skot­grafirnar og farið að tala um gull­grafara­æði, lukku­riddara og á­hlaup á svæði, í stað þess að taka vandaða um­ræðu um kosti og galla þess að fram­leiða endur­nýjan­lega orku með því að beisla vindinn. Allar hug­myndir um nýtingu vindorku eru skotnar niður áður en sam­talið hefst. Það er nauð­syn­legt geta tekið sam­talið svo hægt sé að komast að niður­stöðu hvaða leið við getum verið sam­mála um að fara. Við eigum gnægð af vindi til þess að virkja hér á Ís­landi og það er ó­skyn­sam­legt að taka ekki sam­talið um hvernig hægt sé að nýta þá auð­lind til að mæta fram­tíðar­þörf fyrir græna orku.

Smá­virkjanir gegna mikil­vægu hlut­verki

Þá hefur frétta­flutningur ný­verið og um­ræður í kjöl­farið um smá­virkjanir snúist í sömu átt og um­ræðan um vindorkuna. Hugsan­lega gera fæstir sér grein fyrir mikil­vægi smá­virkjana hér á landi þegar ó­veður geisar yfir landið með til­heyrandi raf­magns­leysi. Um daginn héldu smá­virkjanir uppi raf­magni víða á Norð­austur­landi þegar stærri raf­línur slógu út. Þá eru smá­virkjanir einnig mikil­vægar til þess að styrkja dreifi­kerfi raf­orku um landið en allt að fimmtungur allrar raf­orku sem RA­RIK dreifir til við­skipta­vina kemur frá smá­virkjunum víða um land.

Raf­orku­kerfið okkar þarf að vera á­falla­þolið en góðir inn­viðir eru undir­staða öflugs sam­fé­lags. Mikil­vægt er að hlúa að inn­viðum, styrkja og endur­nýja þegar við á. Horfa þarf til mis­munandi lausna til að efla raf­orku­öryggi landsins. Ljúka þarf endur­nýjun megin­flutnings­kerfisins sem liggur í kringum landið (byggða­línan) enda er hún orðin hálfrar aldar gömul og raf­orku­notkun hefur marg­faldast frá því að hún var byggð. Fyrstu á­fangar á þeirri veg­ferð komust í gagnið í sumar eftir tíu ára undir­búning. Þá þarf að flýta jarð­strengja­væðingu dreifi­kerfisins og tryggja að vara­afl sé til staðar þar sem þörf krefur. Tryggja þarf nægt fram­boð á raf­orku en fjöl­breytt orku­fram­leiðsla víða um land stuðlar að auknu orku­öryggi. Þetta er verk­efni sem leysir sig ekki sjálft.

Við þurfum að tala saman

Enn og aftur höfum við verið minnt á hvað orku­inn­viðirnir okkar eru mikil­vægir fyrir heilsu, öryggi og lífs­viður­væri fólks. Í af­taka­veðrinu sem gekk yfir landið um daginn varð víð­tækt raf­magns­leysi með til­heyrandi tjóni og ó­þægindum, þrátt fyrir upp­byggingu á kerfinu og um­fangs­mikinn undir­búning og við­búnað þeirra sem stuðla að öryggi og vel­ferð lands­manna. Ef við ætlum okkur að ná árangri í lofts­lags­málum á­samt því að tryggja orku­öryggi allra lands­manna þá er mikil­vægt að öll um­ræða sé hóf­stillt og í sam­ræmi við það verk­efni sem við okkur blasir. Við vitum hvað verk­efnið er og við vitum hvað er í húfi. Tölum saman.

Höfundur er þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis

Nýjast