Til varnar kisum

Þorsteinn Pétursson.
Þorsteinn Pétursson.

Fyrir nokkru kom í Ríkissjónvarpinu all ítarleg frétt og viðtal um lausagöngu katta á Akureyri. Fréttin hófst á kynningu, „Akureyringar eru orðnir langþreyttir á lausagöngu katta í bænum“. Þar sem ég er Akureyringur í húð og hár og kattaeigandi lagði ég við hlustir. Vitnað var í Akureyringa eins og búið væri að ræða við þá alla og þarna væri því samróma álit þeirra. Ég kannaðist ekki við að hafa verið spurður álits sem Akureyringur, sem og enginn þeirra fjölmörgu sem ég ræddi við og eru í sömu sporum og ég.

Kettir hafa fylgt manninum frá fornu fari og á mínu heimili oft verið kisi til mikillar gleði enda félagsskapur sem þeir gefa. Í fréttinni kom síðan viðtal við konu og myndir frá heimili hennar sem segist ítrekað fá óumbeðnar heimsóknir katta sem koma þar inn um glugga. Fram kom að hún hafði verið að heiman og komið að heldur óskemmtilegum viðskilnaði kattarins sem auðvitað hafi talið, þar sem glugginn og aðgengið væri jafn gott og vanalega, að hann væri velkominn og notfært sér það. Þá sýndi konan kattaskít í poka sem hún sagðist hafa verkað upp úr fallegum sófa. Auðvitað er það hvimleitt ef kettir t.d. míga á þröskulda hjá fólki en auðvelt er að vinna gegn því.

Einnig að venja ókunna ketti að gera sig heimakomna. Konan sem viðtalið var við hefði átt ef hún vildi ekki að þessi gestur kæmi inn að minnka rifuna á glugganum eða eins og ég þekki til, setja netgrind en samt geta haft gluggan opinn. Ég tel að varðandi veiðar katta á fuglum komist þeir ekki í hálfkvist við Hrafna og Máva sem gjarnan ná sér í grillmat á svölum það sem kettir ná ekki til. Þar skíta þeir gjarnan í kveðjuskyni.

Ég vona að ekki verði farið á öfgafullan hátt í baráttu gegn þeirri hefð að fólk fái að eiga sína ketti í friði og þeir fái frjálsa útivist. Flestir eru komnir með kattalúgu þar sem þeir einir ganga um. Hægt er að læsa þeim, t.d. yfir nóttina eða þann tíma á vorin þegar ungar eru ófleigir. Ég er borinn og barnfæddur Akureyringur og gæti trúað að margir séu mér sammála.

Nýjast