Til framtíðar
Ágætu íbúar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Eins og ykkur er ljóst fara fram kosningar um sameiningu sveitarfélaganna þann 5. júní næstkomandi.
Undanfarnar vikur og mánuði hafa verið haldnir fjölmargir íbúafundir til að vinna að og kynna hvað í sameiningu felst. Hver eru tækifærin og hverjar eru ógnirnar.
Algengasta spurningin sem við höfum fengið á þessum fundum er: Til hvers að sameinast? Er þetta ekki bara í góðu lagi eins og þetta er?
Jú, ef ekkert breytist gæti óbreytt ástand alveg gengið, en staðreyndin er sú að allt er breytingum háð og við lifum nú tíma hraðfara breytinga, samfélagslegra og tæknilegra. Við trúum því að við slíkar kringumstæður sé betra að taka frumkvæðið og skapa þróun í stað þess að verða fórnarlömb hennar.
Starfsemi sveitarfélaga gerist sífellt flóknari og kallar á meiri sérhæfingu og þekkingu starfsfólks og meiri tíma og skuldbindingu kjörinna fulltrúa.
Við teljum að með sameiningu fái svæðið meira vægi og slagkraft gagnvart ríkisvaldinu, sem og í þeim samstarfsverkefnum sem sveitarfélögin eru þátttakendur í. Við höfum í raun fundið það nú þegar, meðal annars í gegnum Nýsköpun í norðri að þegar við leggjumst saman á árarnar náum við betri árangri í því að draga fólk, fjármagn og þjónustu að svæðinu í heild sinni.
Það er niðurstaða samstarfsnefndar um sameiningu að ekki sé ástæða til að breyta starfsstöðvum leik-, grunn- og tónlistarskóla frá því sem nú er. Að því gefnu að sameining verði samþykkt og fjöldi barna haldist svipaður. Hins vegar gætu skapast tækifæri til að bæta stoðþjónustu við skólana og nemendur og auka samvinnu nemenda, kennara og starfsfólks skólanna þriggja. Raunar er það svo að með þróun tækninnar í skólastarfi hafa opnast nýjar víddir hvað snertir skapandi samstarf og kennslufræðilegar nýjungar. Þá eru margvísleg tækifæri til eflingar félags-, íþrótta- og menningarstarfs ungmenna þessu tengt.
Hvað varðar stjórnsýsluna er gert ráð fyrir því að starfsstöðvarnar verði tvær en stjórnsýslan notfæri sér stafræna tækni til að færa þjónustuna nær íbúum og auka möguleika þeirra á því að hafa áhrif og verða virkari þátttakendur í mótun samfélagsins. Eins má gera ráð fyrir því að starfsmenn stjórnsýslunnar verði ekki eins bundnir stað og tíma og nú er. Þetta er eitt af því sem covid hefur dregið fram og skapar fjölmörg tækifæri til mótunar fjölskylduvæns vinnuumhverfis.
Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Í upphaflegri gerð þess var gert ráð fyrir því að lögbinda lágmarks íbúafjölda sveitarfélaga. Nú er gert ráð fyrir að horfið verði frá þeirri aðferðafræði en þess í stað teknir inn aðrir hvatar og mælikvarðar sem þjóni svipuðum tilgangi, enda er víðtækur stuðningur við eflingu sveitarstjórnarstigsins og að horfið verði frá þeirri þróun sem margir kalla þriðja stjórsýslustigið.
Í þessu átaki til eflingar sveitarstjórnarstigsins hefur verið aukið verulega það fjármagn sem stendur þeim sveitarfélögum sem ákveða að sameinast til boða. Fjármagn til að þróa og efla stjórnsýslu og þjónustu við íbúa, fjármagn til skuldajöfnunar og verkefna sem til framfara horfa svo sem Nýsköpunar í norðri.
Þannig má gera ráð fyrir að verði þessi sameining samþykkt fái nýtt sveitarfélag um 500 milljónir úr þessum sjóði. Nákvæm tala liggur ekki fyrir því hún mun miðast við ársreikning 2021. Þessi upphæð greiðist á fimm árum og það er trú okkar að á þeim tíma skapist andrúm til að endurskipuleggja og þróa starfsemi nýs sveitarfélags.
Það er því alveg ljóst að kosningarnar 5. júní eru þessu svæði afar mikilvægar. Við viljum hvetja þig lesandi góður til að kynna þér málið vel og inn á slóðinni thingeyingur.is er mikið magn upplýsinga sem er afrakstur vinnu fjölda fólks úr vinnuhópum, íbúafundum og samstarfsnefnd um sameiningu sem varpa skýrara ljósi á þetta verkefni en hægt er ná í stuttri blaðagrein.
Tökum upplýsta ákvörðun, mætum á kjörstað og kjósum samkvæmt sannfæringu okkar.
Og hvað sem gerist og hvernig sem fer skulum við ganga samhent til móts við framtíðina.
-Helgi Héðinsson, formaður samstarfsnefndar og oddviti Skútustaðahrepps.
-Arnór Benónýsson, varaformaður samstarfsnefndar og oddviti Þingeyjarsveitar.